Heildarveiði íslenskra skipa var um 40% meiri í júní 2014 en í sama mánuði árið 2013. Botnfiskafli var almennt nokkuð meiri en í júní í fyrra og kolmunni veiddist einnig mun betur.

Heildarafli í júní var rúm 56 þúsund tonn en var í sama mánuði í fyrra rúm 40 þúsund tonn. Þorskaflinn fór úr um 15 þúsund tonnum í 17 þúsund tonn en minna var veitt af ýsu en í fyrra. Lítilsháttar aukning varð í veiði á ufsa, karfa og öðrum botnfisktegudnum.

Mesta aukningin varð í uppsjávarveiðum sem námu alls 20.600 tonnum í samanburði við 9.300 tonn í fyrra. Makrílveiðar voru svipaðar milli ára, eða um 8.500 tonn en mestu munar um veiðar á tæplega 12 þúsund tonnum af kolmunna því í júní í fyrra hafði enginn kolmunni borist á land.

Þegar borin eru saman 12 mánaða tímabil á milli ára kemur í ljós nokkur minnkun í bæði botnfisk- og uppsjávarafla á milli ára. Magnvísitala á föstu verðlagi á 12 mánaða tímabilinu hefur minnkað um 3,4% miðað við árið áður.

Greint er frá þessu á vef Hagstofu Íslands .