Trackwell hefur í mörg ár selt afladagbókar- og flotastýringarkerfi sín innanlands fyrir stærri skip. Flestar stærstu útgerðir landsins eru með kerfi frá Trackwell. Í heildina senda 250 íslensk skip afladagbækur til Fiskistofu í gegnum kerfið og stór hluti þeirra, eða nálægt 100 skip, eru með þá viðbótarþjónustu sem kerfi Hafsýnar býður upp á. Sala á erlenda markaði er samt margföld á við söluna innanlands. Um 15.000 skip víðs vegar um heiminn byggja að einhverju leyti á tæknilausnum frá fyrirtækinu.

Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri Trackwell, segir heimamarkað mjög mikilvægan fyrir fyrirtækið. Þar verði til þekkingin sem að endingu verður að vöru sem seld er innanlands og erlendis.

Trackwell hefur einnig þróað fiskveiðieftirlitskerfi fyrir stjórnvöld víða um um heim og hefur selt slík kerfi fyrir fiskveiðieftirlit í Atlantshafinu, Miðjarðarhafinu og eru með stóra hlutdeild í Kyrrahafinu. Þetta kerfi heitir TrackwellFims (Fishery Information Management System).

Heildrænt yfirlit yfir starfsemina

Þorsteinn Ágústsson, vörustjóri Hafsýnar, segir fyrirtækið hafa þróað fyrstu rafrænu afladagbókina hér á landi árið 2005, áður en Hafsýn rann inn í Trackwell. Með reglugerð er öllum skipum skylt að færa rafræna afladagbók og í síðustu viku náði það einnig til smábáta.

„Allt frá upphafi hefur kerfið verið í þróun og bæst við það ýmsar aðgerðir, ýmist að beiðni yfirvalda eða notendanna sjálfra. Við erum stöðugt að bæta við vefútgáfuna. Þar geta menn fylgst með hvar skipin eru hverju sinni og allt er þetta aðgengilegt skipstjórnarmönnum í brúnni og stjórnendum í landi. Fiskistofa hefur ekki aðgang að kerfinu okkar en fær send áskilin gögn beint frá skipunum í lok hverrar veiðiferðar,“ segir Þorsteinn.

Kerfið safnar upplýsingum og sendir gögn til fjölda aðila, svo sem Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Vaktstöð siglinga og Landhelgisgæslunni, svo dæmi séu tekin, sem koma útgerðum og skipstjórnarmönnum til góða. Auk aflaupplýsinga sem fara til yfirvalda getur kerfið safnað upplýsingum yfir togslóðir, veiðarfæri, olíunotkun og mörg fleiri atriði.

„Kerfið sækir til dæmis gögn beint frá Marel-flokkurum þegar vörur eru framleiddar um borð í frystitogurum. Það sendir einnig upplýsingar beint yfir í önnur kerfi í landi, eins og til dæmis WiseFish birgða- og sölukerfið og í Innova-kerfi Marels sem er framleiðslukerfi fyrir landvinnsluna. Það eru hagsmunaaðilar í landi sem vilja sjá hvað skipið er að veiða, eins og framleiðslustjórar, sölustjórar, gæðastjórar og útgerðarstjórar, hver með sína nálgun. Sú útfærsla okkar kerfis sem er þróuðust sendir þessar upplýsingar í rauntíma með mörgum sendingum á hverjum degi. Gæðastjórar í landi geta nálgast gæðaskýrslur uppsjávarskipa á rauntíma sem sýna þeim til dæmis hve mikil áta er í aflanum. Útgerðarstjórinn sér í gegnum kerfið hvernig síðasti ársfjórðungur var í heildarveiði skipsins. Hann getur líka nálgast á einum stað upplýsingar um olíutöku fyrir skipið sem byggja á  upplýsingum sem koma sjálfkrafa inn í kerfið hjá okkur í gegnum Olíudreifingu eða Skeljung. Sölustjórar fá nákvæmar upplýsingar um hvað er um borð í ísfisktogaranum og eru jafnvel búnir að selja fiskinn löngu áður en honum er landað,“ segir Þorsteinn.

Ekki síður er umhverfislegur „ávinningur“ af kerfi Hagsýnar því margar útgerðir stefna að því að geta greint viðskiptavinum sínum hvert sótsporið er að baki aflans. Upplýsingarnar sem safnast inn á vefsíðuna snúa að einstökum veiðiferðum og úthaldinu sem slíku; hve mikill tími fór í tog og hve langur tími í útstím og heimstím svo dæmi séu tekin. Ennfremur safnast upplýsingar um olíunotkun, siglingahraða og breytingu á honum eftir verkefnum hverju sinni.

„Bókasafn“ skipstjórans

„Kerfið safnar líka upp upplýsingum sem verða að sögulegum gögnum. Menn geta þá farið mörg ár aftur í tímann og séð hvernig veiðin var þá eða fundið hvernig veiðin var á ákveðinni togslóð fyrir nákvæmlega einu ári. Fyrir óreyndari skipstjóra getur kerfið verið mikil upplýsingakista. Þeir eru kannski að fara til veiða á nýjum svæðum og geta þá flett upp í þessum sögulegu gögnum sér til upplýsingar.“

Rafræn afladagbók í farsímaappi

Hafsýn beinir nú sjónum að smábátaflotanum með tilboði um rafræna afladagbók í farsímaappi. Sú breyting varð árið 2020 að smábátasjómenn urðu að færa afladagbók með rafrænum hætti sem þeir gerðu í um eitt og hálft ár í gegnum veflausn sem Fiskistofa lét hanna en hefur nú lokað.

Þegar þetta var skrifað voru tveir dagar frá því að Hafsýn hóf að bjóða smábátasjómönnum þessa þjónustu í gegnum app sitt. Þorsteinn segir að viðtökur hafi strax verið mjög góðar. Undir skilgreininguna falla um 800 bátar. Um er að ræða snjallsímaútgáfu af afladagbók sem er einföld í sniðum en uppfyllir kröfur yfirvalda.

„Við sjáum fyrir okkur að smábátasjómenn ekki síður en aðrir ættu að sjá hag sinn í því að nýta eigin upplýsingar sér til framdráttar í viðskiptalegum tilgangi. Stærri skipin hafa nútímavæðst á þennan hátt og nú er komið tækifæri fyrir minni aðila að gera slíkt hið sama. Við stefnum því að því að þróa appið enn frekar í ljósi þess. Við bjóðum þessa þjónustu einnig erlendis og höfum reynslu þaðan. Við erum víða að þjónusta útgerðir í stærra kerfinu og erum núna að fara að bjóða farsímaappið fyrir smábáta í Noregi í byrjun sumars. Það er líka í undirbúningi að bjóða það í fleiri löndum,“ segir Jón Ingi.

Inni í vefkerfi farsímappsins verður hægt að sjá nærliggjandi báta á rauntíma og hver aflabrögðin eru hverju sinni í gegnum opinberar löndunartölur. Þar birtast líka svæðalokanir Fiskistofu sem gott er að geta fylgst með á einum stað. Sífellt fleiri viðbætur eru að fara inn í appið sem segja má að sé í stöðugri þróun.