Viðræðufundurinn í makríldeilunni, sem hófst í gær í London, heldur áfram í dag. Skipting makrílkvótans milli veiðiþjóðanna er ekki lengur fyrirstaða fyrir samkomulagi heldur það hversu mikill heildarkvótinn eigi að vera.

Íslendingar hafa viljað halda sig við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem er 890.000 tonn fyrir yfirstandandi ár en Norðmenn krefjast þess að heildarkvótinn verði 1,3 milljónir tonna. Þar til viðbótar kæmi afli Grænlendinga og Rússa (sem ekki eru þátttakendur í þessu dæmi) sem gæti numið samtals 100-150 þúsund tonnum. Það þýðir að ef farið yrði að vilja Íslendinga gætu heildarveiðarnar samt komist í yfir milljón tonn og ef tillaga Norðmanna yrði ofan á gæti aflinn orðið hátt í ein og hálf milljón tonna.

Í nýjustu Fiskifréttum er bent á að það sé augljóslega hagsmunamál Íslendinga að stofninn verði ekki ofveiddur því þá gæti svo farið að hann hætti að ganga til Íslands. Sjónarmið Íslendinga eru einnig þau að það sé öllum í hag að stofninn sé ekki ofnýttur í skamman tíma þannig að afrakstur hans til lengri tíma verði lakari en ella þyrfti að vera.

Sjá nánar í Fiskifréttum í dag.