Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu var heildarafli íslenska flotans á fyrstu níu mánuðum núverandi fiskveiðiárs 1.129 þúsund tonn. Til samanburðar var aflinn á sama tíma í fyrra 1.180 þúsund tonn.

Samdrátturinn í heildarafla nemur samkvæmt því um 4,3% eða um 51 þúsund tonnum. Þetta skýrist að mestu af minni afla í uppsjávarfiski á milli vertíða sem nemur um 77 þúsund tonnum.

Afli í botnfiski jókst milli ára um 26 þúsund tonn eða um 6,7%.

Á þessum tíma nýttu aflamarksskip um 91,5% af aflaheimildum sínum í þorski. Þetta er hlutfallslega sama aflamarksstaða og var á sama tíma á fyrra fiskveiðiári. Þorskafli aflamarksskipa á yfirstandandi fiskveiðiárs nam rúmum 119 þúsund tonnum samanborið við 101 þúsund tonn á fyrra ári.

Krókaaflamarksbátar höfðu nýtt 77,5% af heildaraflaheimildum sínum á fyrstu níu mánuðum fiskveiðiársins reiknað í þorskígildum samanborið við 78,2% á sama tíma fyrra fiskveiðiárs.