Afli bolfiskskipa Síldarvinnslusamstæðunnar var mjög góður á árinu 2024 en heildarafli þeirra var 36.890 tonn. Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Vestmannaeyjaskipin, Bergur VE og Vestmannaey VE, færðu samtals að landi tæplega 5.000 tonna afla, Bergur 4.752 tonn og Vestmannaey 4.992 tonn. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri skipanna, segir að menn séu ágætlega sáttir við árið.

„Eins og venjulega veiddist mest yfir vertíðartímann, frá því í febrúar og fram í apríl, en það var einnig þokkaleg veiði á öðrum árstímum. Skipin voru mikið að veiðum fyrir austan landið í haust en annars var mest veitt á miðum fyrir sunnan land. Við leggjum áherslu á að tryggja kaupendum fisk allar vikur ársins og því eru bæði skipin í einu ekki frá veiðum nema á stórhátíðum,” sagði Arnar.

Ársafli Blængs ekki verið meiri

Veiðar hjá Gullver NS gengu einnig vel á árinu. Ársaflinn var 4.546 tonn, nokkru meiri en á árinu 2023. Þá var árið hjá frystitogaranum Blængi NK býsna gott en ársafli skipsins hefur ekki verið meiri. Blængur aflaði 8.035 tonn á árinu og var verðmæti aflans 3.500 milljónir króna. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að ekki sé hægt annað en vera sáttur við aflabrögðin.

„Árið var mjög farsælt hjá Gullversmönnum en skipið var frá í heilan mánuð vegna vélarupptektar. Hjá Blængi var um metár að ræða bæði hvað varðar afla og aflaverðmæti. Sem sagt, árið hjá togurunum var hið ágætasta,” sagði Grétar.

Líklega mesti afli hjá íslensku línuskipi

Að sögn Péturs Hafsteins Pálssonar, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, gengu veiðar vel hjá Vísisskipunum. „Ársafli línuskipsins Sighvats GK er líklega sá mesti hjá íslensku línuskipi. Aflinn var 4.752 tonn af slægðum fiski eða um 5.500 tonn af óslægðum. Afli línuskipsins Páls Jónssonar GK var litlu minni eða 4.615 tonn af slægðum fiski. Þetta er hreint út sagt hörkufiskirí hjá þessum bátum. Þá gekk mjög vel hjá togskipinu Jóhönnu Gísladóttur GK en hún bar að landi 4.202 tonn. Loks ber að nefna krókaaflamarksbátinn Fjölni GK sem fiskaði 996 tonn. Það gekk svo sannarlega á ýmsu hjá okkur í Grindavík á árinu en eitt er víst að við getum ekki kvartað undan aflabrögðunum,” sagði Pétur.

Ársafli línuskipsins Sighvats GK er líklega sá mesti hjá íslensku línuskipi, 4.752 tonn af slægðum fiski eða um 5.500 tonn af óslægðum. FF MYND/HAFÞÓR HREIÐARSSON/Sjómannaalmanak
Ársafli línuskipsins Sighvats GK er líklega sá mesti hjá íslensku línuskipi, 4.752 tonn af slægðum fiski eða um 5.500 tonn af óslægðum. FF MYND/HAFÞÓR HREIÐARSSON/Sjómannaalmanak