Verð á frosinni tilapiu hefur verið í frjálsu falli en útflytjendur vona að botninum hafi nú verið náð að því er fram kemur á vef IntraFish. Verð á tilapiu, 500 gramma fiski og yfir, fór hæst upp í 1,80 dollara á kílóið (210 krónur ISK) eftir að framleiðslan dróst saman í vetur í Kína sem er stærsti framleiðandinn á þessum vinsæla eldisfiski.
Frá janúar til mars kólnaði óvenju mikið í Kína sem leiddi til þessa að mikil afföll urðu í tilapiueldinu og framboð minnkaði. Verðið fór þá í hæstu hæðir. Framleiðslan er nú komin á fullt skrið á ný og er í hámarki. Kaupendur halda hins vegar að sér höndunum og framleiðendur hafa orðið að slá duglega af verðinu til þess að fá pantanir. Verðið hefur farið niður í 1,25 dollara á kílóið (145 krónur ISK). Framleiðendur telja að verðið megi ekki vera lægra til að standa undir kostnaði við eldið. Almennt er búist við að verðið hækki á ný.
Frosin tilapia undir 500 grömmum fór hæst í 1,50 dollara á kílóið (174 ISK) en lægst í 1,05 dollara (122 krónur ISK). Framleiðendur eru að tapa peningum á þessari stærð.
Þótt markaður fyrir frosna tilapiu hafi dottið niður hefur markaður fyrir ferska tilapiu í Bandaríkjunum verið stöðugur.