Ný Bergey VE, lagðist að bryggju á Akureyri aðfaranótt sunnudagsins eftir þriggja og hálfs sólarhrings siglingu frá Aukra í Noregi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir alltaf ánægjulegt að taka við nýju skipi. Í ágústmánuði 2007 sótti hann einmitt eldri Bergeyna til Noregs sem nú heitir Runólfur SH og er nú í eigu G. Run á Grundafirði.

„Gamla Bergeyin þjónaði okkur vel allan þennan tíma og það var ekkert um byrjunarörðugleika eins og oft fylgir nýjum skipum. Það var líka alltaf góður gangur í veiðunum þennan tíma,“ segir Jón.

Hann segir að það hafi óneitanlega verið gaman að taka við nýja skipinu. Það hafi verið sérstaklega vandað til smíði þess og mikið í það lagt. Öðruvísi sé umhorfs í brúnni sem er mun betur tækjum búin og því talsverð viðbrigði á milli eldri og nýrrar Bergeyjar.

„Það er heilmargt sem ég þarf að læra upp á nýtt. Þarna er Timezero með innbyggðum dýptarmæli, plotter, radar og mörgu öðru. Öll önnur tæki eru af nýjustu gerð, þar á meðal norskur hugbúnaður sem kallast CQ sem safnar saman á lítinn snertiskjá öllum aðgerðum skipstjórans, hvort sem þær lúta að vél, balanseringu, ljósum eða öðrum tækjum.“

Eitt tæki fyrir mörg

„Í þessu tæki get ég framkvæmt allar aðgerðir sem ég hefði annars þurft að gera í mörgum tækjum og með mörgum rofum hér og þar í brúnni. Þetta er allt komið í lítinn snertiskjá þannig að ég hef mun betri yfirsýn og aðgengi að aðgerðum,“ segir Jón.

Jón segir aðstöðu fyrir áhöfnina svipaða og áður en auðvitað sé allt splunkunýtt og óslitið. Stóra málið sé millidekkið sem breytir miklu í vinnubrögðum. Rýmra sé um allt og svæðið mun stærra. Menn þurfi ekki að bisast með þyngdir í axlahæð sem dregur mikið úr vinnuálagi.

Úr stórum körum í minni

„Stóra breytingin er millidekkið og svo einnig breidd skipsins sem gefur skipinu mikinn stöðugleika. Lengd skipanna er svipuð en meiri breidd breytir miklu um alla aðstöðu. Lestarplássið er eitthvað eilítið meira og við munum fara úr stórum körum í lítil kör. Það hefur í för með sér betri meðferð á afla því minni pressa verður á neðstu lögunum í körunum. Með þessu náum við meiri gæðum. Við komum 230 minni körum fyrir í lestinni en áður komum við fyrir 165 stórum körum.“

Bergey er með tveimur vélum og tveimur skrúfum en aflið er svipað á milli skipa. Af þeim sökum gengur Bergey hægar en eldra skipið enda mun þyngra skip og einu númeri stærra. Meðalgangurinn frá Noregi til Íslands var um 8,7 mílur.

„Skipið er tæplega einni hæð hærri og mun breiðara og það kemur niður á ganginum. En togkrafturinn er meiri með tveimur skrúfum og hún getur því dregið meira á eftir sér. Það var fínasta veður á leiðinni en samt kaldi við Noreg og við Ísland. Veðrið lagðist aðeins á okkur á hlið en skipið stóð sig alveg glimrandi vel.“

Nú er verið að setja millidekkið í Bergeyna í Slippnum á Akureyri og á að afhenda skipið 4. nóvember. Í framhaldinu verða ný Vestmannaey og ný Bergey í samfloti inn til Vestmannaeyja þar sem skipunum verður formlega gefin nöfn.