Jón Guðbjartsson útgerðarmaður á Ísafirði er búinn að selja 500 tonn af bolfiskkvóta sem var í eigu fyrirtækja hans. Jón er hættur í útgerð og ætlar að selja skip fyrirtækjanna, að því er fram kemur á vef BB.
„Ég seldi ekkert af rækjukvótanum, hvorki í innfjarðarækjunni eða úthafsrækjunni, og svo á ég eftir 65 tonn af bolfiski,“ segir Jón, sem rekur rækjuverksmiðjuna Kampa hf. á Ísafirði. „Ég er að losa mig við skuldir og með þessu get ég borgað allar skuldirnar. Þungamiðjan í rekstrinum verður rækjuverksmiðjan og þess vegna sel ég ekki rækjukvótann,“ segir Jón. Hann fékk SM Kvótaþing til að sjá um sölu kvótans og segist ekki hafa skipt sér af því hvert aflaheimildirnar voru seldar.
Nýtt fiskveiðiár hefst núna 1. september og þá verður rækjan aftur kvótasett. Helmingur rækjukvótans fer til útgerða sem áttu rækjukvóta áður en rækjuveiðar voru gefnar frjálsar 2011 og hinn helmingurinn til útgerða sem öfluðu sér veiðireynslu frá 2011. Jón segir athyglisvert að sjá hvort gömlu kvótahafarnir geri út á rækju.
Sjá nánar
HÉR
.