„Okkur hefur gengið vonum framar,“ segir Björn Halldórsson, öryggisstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík. „Við lokuðum öllum samgangi á milli allra vinnslustöðva í fyrirtækinu. Þetta var gríðarlega samtillt átak hérna og lýsir vel fyrirtækinu hvað þetta er samstilltur hópur. Þetta var högg fyrir okkur en hefði samt getað farið mun verr.“
Hann viðurkennir þó að vissulega hafi þetta tekið á mannskapinn.
„Þetta varð mjög einmanalegt vegna þess að þetta er opið og skemmtilegt fyrirtæki, og það fór verst í þá sem eru búnir að starfa lengi og eru vanafastir.“
Meðan á þessu stóð fóru línusjómennirnir, sem róa til dæmis í fimm sólarhringa og eru svo heima í kannski 15 tíma, ekki heim til sín á meðan nema þeir væru að fara í lengra frí.
Varðandi frystiskipin segir Björn að bæði embætti landlæknis og Íslensk erfðagreining hafi veitt ómetanlega aðstoð.
„Við fengum skimanir á alla sjómenn fyrir brottför, og það var alveg sama hvað ég þurfti að breyta nafnalistanum oft og með litlum fyrirvara, því var alltaf bara reddað. Við verðum þeim ævinlega þakklát fyrir.“
Einn sjómaður mældist með smit, en hann var einkennalaus þá.
„Hann veiktist heima hjá sér en ekki um borð, og sem betur fer veiktist hann lítið. En ef hann hefði farið um borð þá hefði hann að öllum líkindum smitað áhöfnina og skipið verið stoppað. Við hefðum ekki fundið hann nema Íslensk erfðagreining hefði verið til staðar.“
Meðan á þessu gekk hægðist nokkuð á starfsemi fyrirtækisins. Ákveðið var að línuskipin hættu veiðum aðeins fyrr en venjulega. Í staðinn var settur aukinn kraftur í frystitogarana þrjá og breyttar áherslur voru í veiðunum.
„Við fórum meira að veiða grálúðu vegna þess að Asía var alveg opin og það er nánast allt selt fyrirfram. Þetta hefði samt getað orðið verra því við treystum á ferskt og salt líka.“
Björn hrósar bæði starfsfólki og stjórnendum fyrirtækisins, og þá ekki síst Gunnari Tómassyni framkvæmdastjóra sem hafi haldið utan um allt styrkri hendi.
„Þetta eru allt saman menn og konur sem hafa alist upp hérna í fyrirtækinu og hafa lent í mörgum krísum og vita alveg hvert á að stýra skipunum þegar svona gerist.“
Afrek á Fáskrúðsfirði
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði fjallar á vef sínum um ástandið undanfarnar vikur og segir að í frystihúsi fyrirtækisins hafi afrek verið unnin.
„Í fyrsta lagi sú staðreynd að frystihúsið hélt sinni starfsemi gangandi í gegn um Covid með öllum þeim takmörkunum og reglum sem þá voru í gildi. Og i öðru lagi var sett þar framleiðsumet á dögunum.“
Þorri Magnússon framleiðsustjóri greinir frá því að búið sé að aflétta nokkrum af þeim reglum sem tóku gildi í Covid en aðrar væru enn við lýði.
„Það er búið að aflétta vaktaskiptum, nú starfa allir á sama tíma, en það eru enn strangar umgengisreglur” sagði Þorri.
Hann sagðist óneitanlega sakna heimsókna fyrrum starfmanna og vina frystihússins en nú væru breyttir tímar.
„Okkar markmið var frá upphafi að gæta að öryggi starfsmanna, tryggja atvinnuöryggi og tryggja afhendingaöryggi á þeim vörum sem við framleiðum.”
Birgðir af saltfiski
Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum rakti Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður áhrif veirufaraldursins heima og heiman, fjallaði um miklar og árangursríkar sóttvarnaraðgerðir til sjós og lands í Vinnslustöðinni.
Hann segir starfsemina hafa gengið betur í veirufárinu en hefði mátt ætla.
„Skipin voru gerð út og fiskur unninn í landi, meira samt í salt en hefði verið gert að óbreyttu. Verulegar birgðir eru því til af saltfiski handa Portúgölum þegar líður á árið og þeir hreyfa sig til matarkaupa vegna aðventu og jóla!“ segir í frásögn á vef fyrirtækisins.