Hans Kristjánsson frá Suðureyri í Súgandafirði stofnaði fyrstu sjóklæðagerð landsins fyrir árið 1926. Þegar Sjóklæðagerðin, sem í dag er þekkt undir nafninu 66°Norður, hóf þetta ár starfssemi sína á Súgandafirði, byggðist starfsemin á framleiðslu fatnaðar fyrir íslenska sjómenn og fiskverkunarfólk. Klæðnaðurinn var oftar en ekki lífsnauðsynlegur á þessum árum, ekki síst þegar tók að kólna og hvessa á miðunum og sjómenn á opnum bátum.

Hans var fæddur árið 1891, sonur Kristjáns Albertssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Sagan segir að Hans hafi verið skírður í höfuðið á norskum skipstjóra sem farist hafði í Súgandafirði, Hans Ibsen að nafni. Hann á að hafa birtst Guðrúnu í draumi meðan hún var ólétt og vitjað nafns. Því fór svo að Hans var skírður í höfuðið á skipstjóranum framliðna. Hans gerðist ungur sjómaður, fyrst á þilskipum á Ísafirði og síðar á vébátnum Nítjándu öldinni.

Sjóklæði fyrir alla
Á þessum tíma klæddust flestir sjómenn skósíðum stökkum frá Noregi og Bretlandi og báru sjóhatta. Aðrir klæddust skinnum sem sjófatnaði sem saumaður var í flestum tilvikum á heimilum. Saumar voru handgerðir oftast með grófum nálum sem hefur síðan orðið til þess að fatnaðurinn hefur lekið. Hans hafði háleit markmið og ákvað að feta sig áfram við gerð fatnaðar sem hentað gæti íslenskum sjómönnum í glímunni við óblíð náttúruöflin.

Hans fékk styrk frá Fiskifélagi Íslands til að ferðast til Noregs sumarið 1924 þar sem hann kynnti sér sjóklæðagerð. Þegar hann sneri aftur heim hóf hann undirbúning sjóklæðagerðar á Suðureyri. Hann hóf framleiðslu á íslenskum sjófatnaði sem átti að vera sterkur og endingargóður og að fullu leyti samkeppnisfær við innfluttan sjófatnað þess tíma og betri en heimasaumuð skinn. Hann var á hrakhólum með húsnæði fyrsta árið sem bitnaði á framleiðslunni, og leiddi til þess að Hans ákvað að flytja fyrirtækið til Reykjavíkur árið 1926 og stofnaði Sjóklæðagerð Íslands í bakhúsi við Laugaveg 42. 66°Norður nafnið kom til sögunnar löngu síðar en á rætur að rekja til þess að Súgandafjörður er staðsettur rétt norðan við heimskautsbaug, á breiddargráðu 66°N.

Árið 1929 stofnaði Hans síðan hlutafélag um starfsemina með þeim Jóni Thoroddssyni, Sigurði Runólfssyni, Sverri Sigurðssyni, Örnólfi Valdimarssyni og Eiríki Kristjánssyni.

Úr olíubornum striga
Sjóklæðagerðin framleiddi til að byrja með eingöngu sjóstakka úr olíubornum og striga. Efnið sem notað var í sjófatnað var upphaflega keypt tilbúið frá Skotlandi og var olíuborið og þurrkað. Það leið þó ekki á löngu þar til farið var að olíubera efnin á Íslandi en þá voru keyptir dúkar og olía erlendis frá og efnið síðan unnið hér á landi. Sjóstakkurinn var bylting á þessum tíma fyrir íslenska sjómenn og mun betri flík fyrir sjómennsku en áður hafði þekkst. Hinn hefðbundni sjóstakkur var lokaður og náði niður að stígvélum. Sjóstakkurinn var með kraga en sjómenn voru einnig með sjóhatta við stakkana.

Þetta voru umbrotatímar í íslensku þjóðfélagi og nýir atvinnuhættir kölluðu á aukna sérhæfingu í störfum sem kölluðu hvert um sig á viðeigandi klæðnað. Eftirspurn eftir sérhæfðum vinnufatnaði var því heilmikil. Vörunum fjölgaði hratt og Sjóklæðagerðin stækkaði samhliða því. Árið 1933 voru 34 starfsmenn í vinnu hjá fyrirtækinu og voru yfirmenn þá ótaldir. Auk sjófatnaðar voru framleiddir frakkar, úlpur, kápur og vinnufatnaður að breskri og norskri fyrirmynd í samstarfi við Vinnufatagerð Íslands.

Fatnaður sjóklæðagerðarinnar var þegar þarna var komið sögu ekki lengur bundinn við sjómenn og fiskverkunarfólk heldur var almenningur einnig farinn að klæðast honum. Fyrri hluti 20. aldrarinnar var tími örra breytinga og mikils vaxtar í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátar og togarar leystu af hólmi árabáta og þilskip. Stór sjávarútvegsfyrirtæki urðu til og útgerð og allt skipulag henni tengdri breyttist verulega. Vinsældir og eftirspurn íslenska sjógallans jókst enn frekar samhliða þessum mikla vexti í sjávarútvegi. Þá voru einnig gerðar meiri kröfur til öryggis- og klæðaburðar íslenskra sjómanna en áður.

Afsprengið enn í notkun
Eftir heimsstyrjöldina síðari komu fram á sjónarsviðið efni sem voru léttari og þægilegri íveru en eldri efni. Það voru m.a. polyvinyl efni eða regnfataefni eins og við þekkjum þau í dag. Árið 1958 varð þó mikil bylting í framleiðslu á sjófatnaði. Þá keypti fyrirtækið hátíðnisuðuvél frá Bretlandi. Þetta var fyrsta vélin sinnar tegundar á landinu en hún bræddi saman sauma á pvc-húðuðum efnum. Jafnframt var stofnað til nýrrar framleiðslu á vinyl-glófanum sem naut og nýtur enn mikilla vinsælda meðal sjómanna.

Hinn hefðbundni sjóstakkur var samt enn vinsæll til sjós fram á sjötta áratuginn og notaður áfram að einhverju marki lengur. Það er raunar ekki langt síðan sjómenn hættu alveg að nota hann. Þótt sjóstakkurinn hafi í dag runnið sitt skeið þá eru afsprengi hans - sjóbuxurnar, anorakkarnir og jakkarnir - enn í notkun dag og nótt á fiskimiðunum. Þau hanga líka í þúsundatali í fataskápum landsmanna og eru oft notuð þegar veður er vont við leik eða störf.

Gæðauppfærsla
Á síðasta ári fékk hinn eini sanni íslenski sjógalli mikla gæðauppfærslu þegar hönnunarteymi 66°Norður endurhugsaði gallann nánast frá grunni. Það er mikill munur á sjógallanum í dag og frá því áður var og þá fyrst og fremst gæðalega. Hann er mun liprari og þægilegri og auk þess hlýrri og tæknilegri í alla staði.

„Það eru ýmsar uppfærslur á nýja gallanum svo sem sterkara efni, liprara og kuldaþolnara í alla staði að ógleymdu því að nú er sniðið öllu betra og þægilegra fyrir notendur. Við fundum nýjan efnisframleiðanda sem stóðst okkar kröfur um gæði og útkoman er mjög góð. Gallinn hefur verið betrumbættur í gegnum tíðina en aldrei fengið svo mikla yfirhalningu sem nú,” segir Elín Tinna Logadóttir, sölu- og rekstrarstjóri 66°Norður. Hún segir að fyrirtækið hafi frá upphafi verið brautryðjandi hérlendis í framleiðslu margs konar skjólfatnaðar sem hentar vel í kulda og vosbúð, sérstaklega sjóvinnufatnað.

,,Allt frá þeim tíma þegar 66°Norður hóf starfssemi sína á Súgandafirði árið 1926, þá undir nafninu Sjóklæðagerðin, hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að þróa og bjóða vörur sem standast kröfur íslenskra sjómanna, bæði hvað varðar þægindi og öryggi. Það skiptir okkur miklu máli að hlusta á sjómennina sjálfa svo við fengum nokkra þeirra til liðs við okkur þegar þessar breytingar stóðu yfir og þeirra innlegg var ómetanlegt við þróun og útfærslu nýja sjógallans,” segir Elín Tinna ennfremur.