Færeyska skipafélagið Smyril Line Cargo, sem á og rekur farþega- og vöruflutningaferjuna Norrænu, hefur ákveðið að hefja beinar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam í byrjun apríl 2017.
Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri Norrænu og einungis verður boðið upp á vöruflutninga á nýju siglingaleiðinni.
Fest hafa verið kaup á 19 þúsund tonna ferju sem tekur 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð og á hún að hefja siglingar í lok mars 2017.
Flutningstíminn með Smyril Line Cargo milli Þorlákshafnar og Rotterdam verður sá stysti sem boðið verður upp á í sjóflutningum milli Íslands og Evrópu.
Ferjusiglingarnar munu stórauka umsvif í Þorlákshöfn og væntingar eru um að þær stuðli að enn frekari vexti og atvinnuuppbyggingu á svæðinu, segir í fréttatilkynningu.