Ungloðnumælingar sem fram fóru í haust gefa tilefni til að ætla að upphafskvóti í loðnu fyrir vertíðina 2011/2012 geti legið fyrir strax í sumar. Hversu kvótinn verður mikill er óljóst og einnig er spurning hvort æskilegt sé að sumarveiðar verði teknar upp á ný, að því er fram kemur í úttekt í nýjustu Fiskifréttum
Loðnan er sameiginlegur stofn Íslendinga, Grænlendinga og Norðmanna og hún heyrir því undir ráðgjöf ICES. Vinnunefnd ICES tekur málið fyrir í lok apríl. Ráðgjöf frá ICES kemur á sama degi og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ástand og horfur nytjastofna verður kynnt í byrjun júní.
Leyfilegur hámarksafli í loðnu skiptist þannig að Íslendingar fá 81% í sinn hlut, Grænlendingar fá 11% og Norðmenn 8%, samkvæmt þríhliða samningi um loðnuveiðar milli þjóðanna.
Í samningnum segir að leitast skuli við að ákveða leyfilegan hámarksafla til bráðabirgða fyrir 1. júní ár hvert á vertíð sem hefst 20. júní og stendur til 30. apríl árið eftir.
Ekki hefur verið unnt að gefa út upphafskvóta í loðnu að sumri til í mörg ár þar sem mælingar á ungloðnu hafa ekki tekist. Síðast var loðna veidd að sumri til á árunum 2004 og 2005.
Ljóst er að verði kvóti gefinn út geta Norðmenn að öðru óbreyttu hafið veiðar í sumar á loðnu við Jan Mayen gangi loðnan inn í lögsögu þeirra. Einnig íhuga íslenskar útgerðir þann möguleika að veiða hluta kvóta síns að sumri til. Hins vegar er álitamál hvort æskilegt sé að veiða loðnu að sumri því hún á eftir að bæta miklu við þyngd sína frá sumri og fram á haust.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.