Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur falið Jakobi Björgvin Jakobssyni bæjarstjóra að hefja viðræður við Acardian Seaplants Ltd., um uppbyggingu rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöðvar þangs í Stykkishólmi.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá því í lok ágústmánaðar.
Hugmyndir og áform um þangvinnslu í Stykkishólmi hafa verið til umræðu og meðferðar í Stykkishólmi um nokkurra ára skeið. Um er að ræða hugmyndir að nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi, nánar tiltekið nýtingu þangs í Breiðafirði, þar sem hugmyndir um sjálfbæra nýtingu auðlinda fjarðarins hefur verið grundvöllur samtals við þau fyrirtæki sem hafa sýnt verkefninu áhuga, segir þar.
Tvö um hituna
Tvö fyrirtæki höfðu farið þess á leit við bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar að hefja formlegar viðræður um skipulagningu atvinnusvæðis fyrir þörungavinnslu í Stykkishólmi; hið kanadíska Acadian Seaplants Ltd. og hins vegar Íslenska kalkþörungafélagið ehf.
Ráðgjafarnefnd vegna þessara hugmynda var skipuð af bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar í lok árs 2018 og var hlutverk hennar m.a. að fara yfir og meta fyrirliggjandi gögn varðandi fyrirhugaða rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi og leggja mat á kosti og galla sem snúa að starfseminni. Eins að meta hvort auka má framtíðarverðmæti svæðisins og breytileika afurða með svæðaskiptingu þar sem leyfðar eru mismunandi aðferðir til sláttar; s.s. að rækta þörunga á línum, handtína, handslá, eða slá með vélarafli.
Allar umsagnir jákvæðar
Nefndin lauk störfum í apríl 2019. Skýrslunni var vísað til umsagnar skipulags- og bygginganefndar, atvinnu- og nýsköpunarnefndar og umhverfis- og náttúruverndarnefndar bæjarins. Allar umsagnir nefndarfólks voru jákvæðar. Málið var ennfremur kynnt á íbúafundi í lok maí síðastliðnum þar sem farið var yfir aðdraganda og og framvindu málsins.
Kemur fram í fundargerð að fulltrúum Stykkishólmsbæjar var boðið að heimsækja Acadian Seaplants Ltd til Kanada. Oddvitar flokka í bæjarstjórn og bæjarstjóri fóru til Nova Scotia í júní í sumar þar sem hópurinn kynnti sér stefnu fyrirtækisins í auðlindastjórnun, rannsóknum og þróun ásamt framleiðsluaðstöðu þar sem aukin verðmætasköpun fer fram.
Jafnframt var bæjarstjóra falið að kanna hvort Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. hafi áhuga á að kynna starfssemi sína með sambærilegum hætti, en Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. óskaði eftir því að gera athugasemdir við skýrslu ráðgjafanefndarinnar. Hafa engin viðbrögð borist frá félaginu, segir í fundargerðinni.
Greinin birtist fyrst í Fiskifréttum 12. september