„Þegar ég var á siglingu þá frussaðist inn í lestina,“ segir Björn Magnús Magnússon, skipstjóri á fiskibátnum Mardöll sem rétt í þessu kom til hafnar á Patreksfjarðar í fylgd björgunarskipsins Varðar II.
Línuskipið Patrekur var fyrst á vettvang þar sem leki hafði komið að fiskibátnum Mardöll frá Bíldudal í Arnarfirði í morgun. Áhöfn Patreks kom auka dælu um borð í bátinn og hafði hún undan lekanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Í samtali við Fiskifréttir segist Björn skipstjóri ekki geta ímyndað sér hver orsök lekans sé.
„Það er enginn botnloki eða neitt þarna undir lestinni. En það lekur ekkert í vélarrúm. Þetta er að minnsta kosti ekki á síðunni,“ segir Björn sem kveðst einskis hafa orðið var fyrr en að veiðum loknum og hann var lagður af stað í land.
Sigldi áfram því enginn var nálægt
„Ég tók eftir að það fór að loga ljósið á lensingunni og kíkti í lestina. Þá var komið vel af sjó, upp á mið kör aftast í lestinni. Það hélt bara áfram. Það var enginn bátur nálægt og ég var ekkert að slá af til að fara að skoða og sigldi bara áfram og lét lensinguna vinna þar til ég kom að dragnótarbát sem heitir Patrekur og var í mynni Arnarfjarðar,“ lýsir Björn atburðarásinni.
Mardöll lagði að síðu Patreks. Björgunarbáturinn Vörður II frá Patreksfirði kom þá á vettvang og var Mardöll bundinn við síðu hans og þannig héldu skipin í samfloti til Patreksfjarðar.
Björn segist ekki vita hversu mörg tonn af sjó voru komin í bátinn. „En ég fór alla vega í gallann vegna þess að hann hefði farið niður ef ég hefði ekki hitt einhvern.
Sjö hundruð kíló af fiski um borð
„Báturinn verður tekinn á síðu Varðar inn til löndunar á Patreksfirði, en 700 kíló af fiski eru um borð, síðan er ráðgert að taka bátinn upp til skoðunar,“ segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Í tilkynningu sem Landhelgisgæslan sendi frá sér fyrr í dag kom að skipstjóri fiskibátsins hafi sent frá sér neyðarkall eftir að leki kom að bátnum þar sem hann var á veiðum í mynni Arnarfjarðar á tíunda tímanum í morgun.
„Skipstjóri fiskibátsins tjáði varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að dæla bátsins hefði ekki undan og lestin væri að fyllast af sjó,“ sagði í tilkynningunni.
Aðrir bátar snöggir til aðstoðar
Þyrla Gæslunnar var strax kölluð út á fyrsta forgangi sem og björgunarskip á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Patreksfirði. Þá voru skip í grenndinni beðin um að halda á staðinn að því er Landhelgisgæslan sagði.
„Fiskibátar sem staddir voru skammt frá vettvangi voru snöggir á staðinn. Áhöfn eins þeirra kom dælum um borð sem höfðu undan og festu bátinn utan á síðuna. Neyðarástandi var þá aflýst og þyrla Landhelgisgæslunnar afturkölluð. Ákveðið var að björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar héldi sinni ferð áfram með fleiri dælur til öryggis. Björgunarskipið mun taka við bátnum og draga hann til hafnar. Skipstjóri fiskibátsins tjáði varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að dæla bátsins hefði ekki undan og lestin væri að fyllast af sjó.“