Smíði er hafin á HPP 2000 próteinverksmiðju fyrir nýjan 80 metra langan frystitogara Ramma sem smíðaður er hjá Terzan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipasmíðastöðin hefur samið við Héðin um kaup á verksmiðjunni.
HPP 2000 verksmiðjan afkastar 50 tonnum af hráefni á sólarhring. Hún tekur við öllum afskurði, slógi og beinum sem til fellur við vinnslu afurðanna um borð í skipinu og skilar af sér hágæða fiskmjöli og lýsi.
Smíði verksmiðjunnar lýkur um næstu áramót og hefst uppsetning hennar hjá Terzan í febrúar á næsta ári.
Þetta er önnur mjöl- og lýsisverksmiðjuan sem Héðinn smíðar til notkunar um borð í frystitogara. Sú fyrri fór í færeyska togarann Norðborg árið 2009. Sú verksmiðjan skilar að jafnaði 20-25% af heildaraflaverðmæti skipsins og hefur útgerð þess lýst yfir mikilli ánægju með fjárfestinguna.
Gunnar Pálsson, þróunarstjóri Héðins, segir réttara að tala um próteinverksmiðju en lýsis- og fiskmjölsverksmiðju.
„Verðmæti afurðanna byggjast aðallega á próteininnihaldi mjölsins en fiskolían er ekkert síður mikilvæg afurð þó magn hennar sé minna. HPP er hönnuð til að skila gæðamjöli með lághitaþurrkun og fiskolíu í hæsta gæðaflokki.“