HB Grandi skilaði um 5,7 milljörðum króna í hagnað eftir tekjuskatt á árinu 2013. Heildartekjur félagsins námu 31,6 milljörðum króna, að því er fram kemur í frétt frá HB Granda.
Í lok ársins 2013 voru eignir HB Granda um 53 milljarðar, skuldir um 21 milljarður og eigið fé um 32 milljarðar.
HB Grandi gerir út 10 fiskiskip í árslok. Á árinu var gengið frá samkomulagi um endurnýjun uppsjávarflota félagsins, ásamt því að ákveðið var að leggja uppsjávarskipinu Víkingi. Á árinu var lokið við að breyta frystitogaranum Helgu Maríu í ísfiskskip. Jafnframt var frystitogarinn Venus seldur í árslok.
Árið 2013 var afli skipa félagsins 53 þúsund tonn af botnfiski og 135 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2014 verði vegna rekstrarársins 2013 greiddur um 2,7 milljarðar í arð sem samsvarar 8,6% af eigin fé eða 6,8% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2013.