Að frumkvæði stjórnenda HB Granda hefur verið ákveðið að styrkja átak Krabbameinsfélags Íslands, Mottumars – karlar og krabbamein. Það er gert með því að virkja starfsfólk félagsins, rúmlega 800 manns, með framlagi upp á 2.000 krónur fyrir hvern starfsmann sem tekur þátt í Mottumarsi að þessu sinni.
Svo vill til að umræddu átaki var að þessu sinni hrundið úr vör um borð í ísfisktogaranum Helgu Maríu AK eins og áður hefur komið fram. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, telur verkefnið brýnt og hann segir að félagið vilji leggja sitt af mörkum til að sporna við þeim vágesti sem krabbamein virkilega er.
„Forvarnir og heilsuvernd eru okkur ofarlega í huga og má í því sambandi nefna að við höfum meðal annars boðið starfsfólki okkar í árlega heilsufarsskoðun. Sú skoðun hefur þó ekki falið í sér ristilskoðun, hvað svo sem síðar verður,“ segir Vilhjálmur.
Sjá nánar á vef HB Granda.