Fiskistofa hefur birt stöðu yfir aflaheimildir þeirra 100 útgerða sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum í upphafi nýs almanaksárs eftir úthlutun á aflaheimildum í deilistofnum og viðbótarúthlutun í loðnu.
Litlar breytingar eru á hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum frá því sams konar upplýsingar voru birtar í september sl. í kjölfar úthlutunar á aflamarki við upphaf nýs fiskveiðiárs. Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er með um 10,8% af úthlutuðu aflamarki en var á sama tíma í fyrra með 12,2%. Samherji er með 6,2% en var á sama tíma í fyrra með 6,6%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins yfir 17,0% hlutdeild í aflamarki ársins en voru í fyrra með 18,8%.
Talsverðar breytingar eru á lista yfir stærstu útgerðir landsins. Síldarvinnslan fellur niður listann, úr þriðja sæti niður í sjötta sæti og Ísfélag Vestmannaeyja sem var í fimmta sæti á sama tíma í fyrra fellur niður í tólfta sæti. Aflahlutdeild Ísfélagsins dregst einnig saman úr 4,7% niður í 2,7%.
Nokkur fyrirtæki taka stökk upp listann. Fisk Seafood fer úr 8. sæti upp í 5. sæti og Þorbjörn hf úr 6. sæti og er núna 3. stærsta útgerð landsins með tilliti til aflahlutdeildar.