Samkvæmt kvótaúthlutun í upphafi nýs fiskveiðiárs má HB Grandi veiða 16.000 þúsund tonn af karfa sem er 32% af heildarkarfakvótanum. Næsta útgerð á eftir er Samherji með 4.100 tonna karfakvóta eða liðlega 8%. Í þessum tölum er úthafskarfi undanskilinn, en HB Grandi er einnig stærsti kvótahafinn í þeirri tegund.
HB Grandi hefur lengi haft yfirburðastöðu í karfaveiðum og það á reyndar einnig við um ufsaveiðar. Heildarufsakvóti landsmanna var minnkaður milli fiskveiðiára úr 65.000 tonnum í 50.000 tonn. Hlutur HB Granda er tæplega 7.200 tonn eða um 18%. Næsta útgerð á eftir er Þorbjörn hf. í Grindavík með tæp 2.700 tonna ufsakvóta.
HB Grandi er með umfangsmikla vinnslu á karfa og ufsa í fiskvinnsluhúsum sínum. Raunar er fyrirtækið eina íslenska fiskverkunin sem stundar landvinnslu á karfa sem eitthvað kveður að en annars er karfinn yfirleitt að mestu leyti sjófrystur eða seldur óunninn utan í gámum.