Gulldepluveiðum er nú lokið að sinni og uppsjávarskipin hafa snúið sér að öðrum verkefnum. Vertíðin þykir hafa tekist vel þrátt fyrir dræmari veiði en var í fyrra.

Heildargulldepluveiðin á þessu fiskveiðiári nemur um 24 þúsund tonnum en var rúm 38 þúsund tonn á síðasta fiskveiðiári. Fjórtán skip lönduðu gulldeplu að þessu sinni. Hoffell var aflahæsta skipið á vertíðinni með tæp 4 þúsund tonn en næst á eftir koma Faxi og Ingunn með rúm 3.600 tonn hvort skip. Skip HB Granda, þ.e. Faxi, Ingunn og Lundey eru með samtals um 9.800 tonn, eða 41% alls gulldepluaflans.

Þegar lögð er saman veiðireynsla þeirra tveggja fiskveiðiára sem veiðarnar hafa farið fram kemur í ljós að Hoffell er enn í efsta sæti með samtals um 9.400 tonn en Huginn er í öðru sæti með um 8.300 tonn. Huginn, upphafsskip þessara veiða, var ekki eins stórtækur í ár og í fyrra enda var aflinn að miklu leyti frystur um borð að þessu sinni.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.