Lundey NS er væntanleg til Vopnafjarðar í fyrramálið með um 850 tonna síldarafla sem fékkst í einu kasti á Breiðasundi, skammt innan við Stykkishólm, í gærdag. Þar með var aflamarki skipa HB Granda á íslensku sumargotssíldinni náð á þessari vertíð en síldarafli skipanna nemur nú rúmlega 5.000 tonnum. Þetta þýðir að síldveiðunum á vertíðinni er lokið að öllu óbreyttu, segir á heimasíðu HB Granda.

Að sögn Arnþórs Garðarssonar, skipstjóra á Lundey NS, voru aðstæður í Breiðasundinu mjög góðar. Gott veður og þar sem hægt var að kasta nótinni á liggjandanum hafði straumur engin áhrif á kastið.

,,Það er allt annað og betra að athafna sig á Breiðasundi en á hinum sundunum hér í nágrenninu. Það er meira rými og styttra út á 20 faðma dýpi en svo mikið dýpi er vandfundið annars staðar þar sem við höfum verið að veiðum,“ segir Arnþór en hann upplýsir að aðeins hafi tekið nokkrar mínútur að draga nótina eftir að búið var að loka henni.

,,Þetta var reyndar miklu stærra kast en þessi 850 tonn segja til um en sem betur fer var Vilhelm Þorsteinsson EA nálægur og skipverjar á honum gátu nýtt aflann með því að dæla úr nótinni hjá okkur.“

Sjá nánar á vef HB Granda.