Í frétt HB Granda um skýrsluna segir að það sé metnaður félagsins „að öll starfsemi þess sýni í verki ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu öllu.“ Fylgt sé viðmiðum Global Reporting Iniative, G4, og þetta komi jafnframt skýrt fram í því hlutverki sem skilgreint var í stefnumótun félagsins á árinu: Ábyrg verðmætasköpun úr sjávarfangi.

Skýrslan fjallar um ófjárhagslega þætti starfseminnar en meðal umfjöllunarefna eru hagræðing í rekstri, umhverfisverkefni, stafrænar lausnir, mannauðsmál, öryggismál og ýmis samfélagsverkefni.

„Við byggjum ábatasaman rekstur á sjálfbærum sjávarútvegi sem er forsenda þess að HB Grandi geti lagt sinn skerf til samfélagsins og jafnframt tryggt starfsfólki sínu öruggt starfsumhverfi og samkeppnishæf laun,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri í ávarpi sínu.

„Það mun taka tíma að kortleggja þau áhrif sem starfsemi félagsins hefur. Fyrirtæki hafa áhrif á samfélög og samfélög hafa áhrif á starfsemi fyrirtækja. Brýnt er að átta sig á þeim sameiginlegu skyldum sem hljótast af slíku samspili, en í því felast einnig mikil tækifæri. Við erum viss um að sókn á þau mið muni gefast vel fyrir félagið og samfélagið í heild, þó að hér sé ekkert fyrirframgefið handrit fyrir hendi og teikna þurfi sjókortin jafnóðum.“