Afli skipa HB Granda var 152.500 tonn á nýliðnu ári og aflaverðmætið var tæpir 15,2 milljarðar króna, að því er kemur fram á vef HB Granda. Þetta er nokkur samdráttur frá árinu á undan en þá var aflinn rúmlega 188.200 tonn að verðmæti rúmlega 16,8 milljarða króna.
Skýringanna á minni afla og lægra aflaverðmæti er fyrst og fremst að leita í samdrætti í kvóta á helstu uppsjávarfisktegundum. Loðnuvertíðin var vart svipur hjá sjón miðað við árið á undan og þá voru aflaheimildir í norsk-íslensku síldinni skertar töluvert á milli ára. Hvað varðar togarana þá ber að hafa í huga að frystitogurum var fækkað um tvo. Venus HF var seldur úr landi og Helgu Maríu AK var breytt í ísfisktogara. Afli og aflaverðmæti frystitogaranna dróst því saman á meðan aukning varð hjá ísfisktogurunum.
Í meðfylgjandi töflu sést betur hvernig skiptingin var milli einstakra útgerðarflokka í samanburði við árið á undan. Vert er að taka fram að aflaverðmæti frystitogaranna er miðað við FOB verð bæði árin og sömuleiðis gætu tölur breyst örlítið við endanlegt uppgjör fyrir síðustu landanir viðkomandi togara.
Sjá nánar afla og aflaverðmæti einstakra skipa HB Granda á vef fyrirtækisins, HÉR