Gengið hefur verið frá sölu á frystitogaranum sem áður hét Venus HF 519. Kaupandi er grænlenska sjávarútvegsfélagið Enoksen Seafood AS. Söluverðið er 12,2 milljónir danskra króna eða jafnvirði 243 milljóna króna. Skipið hefur verið skráð á nýja eigendur og er greitt að fullu, segir í frétt frá HB Granda.
Þetta er í annað sinn sem skipið er selt til Grænlands á skömmum tíma. Í desember 2013 keypti grænlenska félagið Northern Seafood ApS, sem íslenskir aðilar voru viðriðnir, skipið á 320 milljónir króna. Þá var skipinu gefið nafnið Juni. Þessi kaup gengu síðan til baka og nú heitir skipið Maja E.
Skipið var smíðað á Spáni fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar árið 1973 og hét þá Júní HF.