Karstensen skipasmíðastöðin í Danmörku afhenti í sumarbyrjun Havfisk AS í Noregi nýjan hátæknivæddan uppsjávartogara sem ber sama heiti og útgerðin. Skipið er 75 metra langt, 16,2 á breidd og er búið allra nýjustu tækni til uppsjávarveiða. Fyrir gerir Havfisk út systurskipin Havskjer og Havstål sem Karstensen smíðaði einnig.

Brúin í Havfisk.
Brúin í Havfisk.

Aðalvélin í Havfisk er 5.200 kW Wärtsilä sem tengd er 3.400 kW ásrafstöð. Vélarhönnunin gerir ráð fyrir hreinni dísilknúinni orku og dísil-rafmagns tvinnaflútfærslu. Í skipinu eru þrjár ljósavélar frá Nogva Scania. Í skipinu sjókælitankar sem taka 2.530 m³.

Dekrað við áhöfnina

Allt er gert í hönnun skipsins til að gera aðbúnað áhafnar sem bestan. Þannig er hljóðvist í flestum íbúðum skipsins haldið undir 50 dB. Í skipinu eru stór matsalur, líkamsræktarstöð, sjúkrastofa og þvotta- og þurrkaðstaða fyrir áhöfn.

Snyrtileg setustofa fyrir áhöfn.
Snyrtileg setustofa fyrir áhöfn.

Búnaður á dekki kemur frá Karmøy Winch and Storm. Meðal búnaðar eru tvær 90 tonna togvindur, tvær 148 tonna netatromlur, tvær 20 tommu dælur og þrír þilfarskranar.