Mörgum fiskstofnum stafar ógn af sívaxandi hávaða sem er tilkominn vegna athafna okkar mannanna að því er fram kemur í grein á vef BBC.

Þar er vitnaði til rannsókna sem vísindamenn hafa gert til að meta áhrif af hljóðum og hljóðbylgjum sem berast til undirdjúpanna frá olíuleitarskipum, olíuvinnslu á sjó, fiskleitartækjum og skipaumferð almennt.

Fiskar lifa þó ekki og hafa aldrei gert í þöglum heimi. Flestir þeirra hafa ágæta heyrn og hljóð skipa mikilvægan sess í daglegu lífi þeirra. Vitað er að fiskar gefa frá sér hljóð þegar þeir berjast um yfirráðasvæði, keppa um mat, við mökun og þegar þeir verða fyrir árás annarra fiska eða dýra. Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á að fiskar heyra ýmis hljóð, annað hvort með innra eyra eða geta greint hljóð með rák á bolnum. Hæfileikinn til að nema hljóð er mismikill. Þorskurinn hefur til dæmis meðalheyrn.

Sumar fisktegundir eru næmir fyrir yfirhljóðum, þ.e. hljóðbylgjum sem hafa hærri tíðni en u.þ.b. 20.000 Hz. Aðrir, eins og Evrópuállinn eru næmir fyrir hljóðbylgjum undir 20.000 Hz.

Hávaðamengun hefur vaxið í öllum höfum heims. Áhrif utanaðkomandi hljóða á fiska hafa lítt verið rannsökuð. Til þessa hefur athyglin aðallega beinst að því hvaða áhrif hljóð geta haft á sjávarspendýr eins og hvali.

Ýmis utanaðkomandi hljóð geta valdið truflun í daglegum athöfnum fiska. Til dæmis hefur komið fram í rannsóknum að síld í Atlantshafi, þorskur og bláuggatúnfiskur flýja hljóð sem þeim hugnast ekki. Ef slík hljóð heyrast á þekktum hrygningarslóðum má vera ljóst að þau geta haft áhrif á vöxt og viðgang þessara stofna.

Hávaðamengun er ef til vill ekki stærsta umhverfisógnin sem fiskistofnar standa frammi fyrir. Margt smátt gerir þó eitt stórt. Stöðugt ónæði vegna hávaða getur því verið skaðvaldur í undirdjúpunum.