Haustrall Hafrannsóknastofnunar er langt komið án þess að rannsóknaskip stofnunarinnar hafi verið virkjuð til verksins. Eftir útboð í haust  samdi Hafrannsóknastofnun við útgerðir tveggja skuttogara, Jóns Vídalíns og Ljósafells, um botnfiskrannsóknir við landið. Stofnunin leigir togarana með áhöfn, en sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar eru um borð. Ekki er um að ræða beinar greiðslur fyrir verkið heldur fá útgerðirnar kvóta sem stofnunin fær úthlutað.

Haft er eftir Sólmundi Má Jónssyni aðstoðarforstjóra Hafrannsóknastofnunar á vef RÚV að þetta hafi verið gert í hagræðingarskyni. „Við höfðum hreinlega ekki rekstrarfé til að fara í alla þá leiðangra sem við hefðum viljað og höfum farið í. Þannig að þetta var einn af þeim leiðöngrum sem var skorinn niður í ár.“

Í fréttinni segir ennfremur að mikil óánægja sé með þessa ákvörðun meðal starfsmanna Hafrannsóknastofnunar. Þeir gagnrýna það að rannsóknarskipin séu nú bundin við bryggju og áhafnirnar verkefnalausar.

Sjá nánar frétt RUV HÉR og feril togaranna í leiðangrinum í rauntíma á vef HAFRÓ