Samkvæmt haustralli Hafrannsóknastofnunar eru vísbendingar um að þorskstofninn sé að styrkjast. Vísitala ársgamals þorsks, þ.e. árgangsins frá 2009 mældist sú hæsta frá því að stofnmælingar að hausti hófust árið 1996.
Vísitala tveggja ára þorsks, árgangsins frá 2008, mældist einnig sú hæsta sem sést hefur hjá tveggja ára þorski frá því að mælingarnar hófust. Benda niðurstöðurnar til að báðir þessir árgangar gætu verið yfir langtímameðatali, en árgangar 2001-2007 voru allir vel undir meðallagi. Fyrstu vísbendingar um 2010 árganginn gefa til kynna að hann sé undir meðalstærð.
Hafrannsóknastofnun segir að niðurstöðurnar úr haustrallinu hvað varðar þorskinn séu að mestu í samræmi við væntingar.
Heildarvísitala ýsu lækkaði um 25% frá árinu 2009 og er nú um 45% af því sem hún var árið 2004 þegar hún var hæst. Stofnvísitala steinbíts lækkaði samanborið við 2009 og er nú sú lægsta síðan haustrallið hófst árið 1996.
Stofnvísitala gulllax hefur lækkað talsvert frá árinu 2009 þegar hún náði hámarki.
Stofnvísitölur löngu, blálöngu, langlúru og skötusels eru svipaðar og þær hafa verið undanfarin þrjú til fjögur ár og þær hæstu síðan mælingar hófust.
Stofnvísitala keilu mældist svipuð og í fyrra en hefur farið hækkandi frá 2005. Haustrallið sýnir að nýliðun skötusels (fjöldi eins árs fisks) hefur verið slök síðustu tvö ár sem er í samræmi við stofnmælingu í mars.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunarinnar, HÉR