Haustmæling Hafrannsóknastofnunar og Náttúruauðlindastofnunar Grænlands á loðnustofninum munu standa yfir frá 23. ágúst til 22. september. Grænlenska rannsóknaskipið Tarajoq fór af stað nú um helgina og byrjar syðst á rannsóknasvæðinu (mynd 1). Rannsóknaskipið Árni Friðriksson mun svo koma inn í mælinguna 6. september. Áætlað er að verkefnið á Tarajoq taki 21 dag og verkefni Árna Friðrikssonar 17 daga. Alls munu skipin sigla um 7.850 sjómílur.

Fyrirhugaðar leiðarlínur rannsóknaskipanna Tarajoq (rauð lína) og Árna Friðrikssonar (blá lína) við loðnumælingar haustið 2025. Sýnatökustöðvar með mismunandi búnaði fyrir vistkerfisrannsóknir eru sýndar sem punktar.
Fyrirhugaðar leiðarlínur rannsóknaskipanna Tarajoq (rauð lína) og Árna Friðrikssonar (blá lína) við loðnumælingar haustið 2025. Sýnatökustöðvar með mismunandi búnaði fyrir vistkerfisrannsóknir eru sýndar sem punktar.

Hér má sjá staðsetningu rannsóknarskipanna tveggja á hverjum tíma.

Tilgangur leiðangursins

Markmið leiðangursins er að meta magn bæði ókynþroska og kynþroska loðnu á svæðinu milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen. Sambærileg rannsókn hefur verið framkvæmd allt frá árinu 1978. Frá árinu 2018 hefur leiðangurinn beinst í auknum mæli að rannsóknum á vistkerfi uppsjávar á svæðinu, til viðbótar við loðnumælingarnar.

Í leiðangrinum er því safnað sýnum og gögnum um plöntusvif, dýrasvif, uppsjávarfisktegundir og umhverfiaðstæður, m.a. hita, seltu og strauma. Í ár hefur Hafrannsóknastofnunin aukið framlag til vistkerfisrannsóknanna með þátttöku fjögra hvalatalningarmanna, tveimur á hverju skipi. Hægt er að fylgjast með talningum á hvölum hér.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður loðnumælinganna mun liggja fyrir kringum miðjan október og þá mun Hafrannsóknastofnun senda frá sér endurskoðaða ráðgjöf um veiðar fyrir komandi fiskveiðiári (2025/2026).