Haustmæling Hafrannsóknastofnunar og Náttúruauðlindastofnunar Grænlands á loðnustofninum munu standa yfir frá 23. ágúst til 22. september. Grænlenska rannsóknaskipið Tarajoq fór af stað nú um helgina og byrjar syðst á rannsóknasvæðinu (mynd 1). Rannsóknaskipið Árni Friðriksson mun svo koma inn í mælinguna 6. september. Áætlað er að verkefnið á Tarajoq taki 21 dag og verkefni Árna Friðrikssonar 17 daga. Alls munu skipin sigla um 7.850 sjómílur.

Hér má sjá staðsetningu rannsóknarskipanna tveggja á hverjum tíma.
Tilgangur leiðangursins
Markmið leiðangursins er að meta magn bæði ókynþroska og kynþroska loðnu á svæðinu milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen. Sambærileg rannsókn hefur verið framkvæmd allt frá árinu 1978. Frá árinu 2018 hefur leiðangurinn beinst í auknum mæli að rannsóknum á vistkerfi uppsjávar á svæðinu, til viðbótar við loðnumælingarnar.
Í leiðangrinum er því safnað sýnum og gögnum um plöntusvif, dýrasvif, uppsjávarfisktegundir og umhverfiaðstæður, m.a. hita, seltu og strauma. Í ár hefur Hafrannsóknastofnunin aukið framlag til vistkerfisrannsóknanna með þátttöku fjögra hvalatalningarmanna, tveimur á hverju skipi. Hægt er að fylgjast með talningum á hvölum hér.
Gert er ráð fyrir að niðurstöður loðnumælinganna mun liggja fyrir kringum miðjan október og þá mun Hafrannsóknastofnun senda frá sér endurskoðaða ráðgjöf um veiðar fyrir komandi fiskveiðiári (2025/2026).