Fiskþurrkunin Haustak ætlar ekki að halda áfram starfsemi í Fellabæ og svo gæti farið að 17 störf tapist á Fljótsdalshéraði. Framkvæmdastjórinn segir að samstöðu hafi skort hjá Austfirðingum um að halda stöðinni gangandi. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.

Öllum starfsmönnum Haustaks í Fellabæ var sagt upp síðastliðið vor en vonir stóðu til að hægt yrði að endurráða fólkið ef ástand lagaðist í Nígeríu. Lágt olíuverð og gjaldeyrisskortur dró mjög úr kaupmætti þar, sala á þurrkuðum þorkshausum og skreið minnkaði og lítið hefur fengist fyrir fiskinn.

Dýrt að flytja hráefni milli landshluta

Haustak rekur áfram verksmiðju sína á Reykjanesi en hún er betur í sveit sett með hráefni. Til að hafa hráefni fyrir stöðina í Fellabæ hefur fyrirtækið þurft að flytja hausa frá Suðvesturlandi. Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks, segir að reyndar sé nægt hráefni til eystra, en sjávarútvegsfyrirtæki á Austfjörðum hafi ekki viljað selja hausa í verksmiðjuna. Ekki fyrir það verð sem hægt sé að greiða nú um stundir og á meðan borgar sig frekar að bræða hausana í fiskimjöl. Víkingur segir að viðræður hafi farið af stað en Austfirðingar ekki verið tilbúnir að standa saman um að halda vinnslunni gangandi með hráefni þangað til ástandið lagaðist.

Sjá nánar á vef RÚV.