Matvælastofnun hefur gefið út nýtt rekstrarleyfi fyrir Fiskeldið Haukamýri við Húsavík til að vera með allt að 850 tonna hámarks lífmassa af laxfiskum.
Fyrirtækið hefur til þessa haft heimild til framleiða 450 tonn af bleikju á ári. Nýja leyfið kveður Pétur Bergmann Árnason, framkvæmdastjóri Fiskeldisins Haukamýri, mikilvægt fyrir næstu skref í uppbyggingu.
Fiskeldi hófst að sögn Péturs á Haukamýri á fyrstu árum níunda áratugarins. Á fyrstu árunum voru ræktuð laxaseiði og síðar bættist bleikjan við og nú er eingöngu ræktuð bleikja í kerjum á landi.
„Þetta hefur gengið þokkalega og hefur byggst rólega upp eftir okkur eigin getu gegnum árin en undanfarin ár höfum við ekki náð að anna eftirspurn þrátt fyrir talsverða framleiðsluaukningu,“ svarar Pétur spurður um horfurnar í rekstrinum.
Nýta affallsvarma
„Þetta nýja leyfi er næsta skref í uppbyggingunni. Við framleiddum tæp 450 tonn í fyrra þannig að gamla leyfið var orðið fullnýtt og því komin þörf á stækkun leyfis,“ segir Pétur.
Samkvæmt leyfisumsókninni frá Fiskeldinu Haukamýri mun jafnvel stafa minni mengun frá eldisstöðinni eftir stækkunina.
„Þegar við förum í stækkun kemur aukin hreinsun á frárennslið hjá okkur,“ segir Pétur og undirstrikar að mengun í frárennsli hafi alltaf verið vel undir viðmiðunarmörkum.
„Við reynum að hafa eldið eins umhverfisvænt og sjálfbært og hægt er. Allt vatn er sjálfrennandi og affallsvarmi frá Orkuveitu Húsavíkur er notaður til að hita upp vatnið. Við erum að vinna að áframhaldandi uppbyggingu og erum að skipuleggja næstu skref í framkvæmdum,“ segir Pétur.
Gæði og afhendingaröryggi
Átján manns eru að sögn Péturs á launaskrá hjá Haukamýri í þrettán stöðugildum. „Við byggjum þetta einfaldlega upp skref fyrir skref og við frekari uppbyggingu verða til fleiri störf,“ segir hann.
Megnið af framleiðslunni fer á erlenda markaði að sögn Péturs. „Við flökum þetta sjálf í eigin vinnslu og afurðirnar eru allar seldar ferskar,“ segir hann.
„Við höfum einsett okkur að vera með eins mikil gæði og mögulegt er og höfum hlotið velgengni fyrir það,“ segir Pétur sem verður þó ekki við því að upplýsa leyndarmálið þar að baki að öðru leyti en að ítreka markmið fyrirtækisins. „Það er okkar mottó að vera með afhendingaröryggi og bestu fáanlegu gæði.“
Óverulegar líkur á strokufiski
„Búnaður eldisstöðvarinnar er þannig að í öllum körum eru ristar til að hindra að fiskur geti strokið og þar að auki mun allt frárennsli stöðvarinnar fara um síu áður en það rennur í Skjálfandaflóa. Óverulegar líkur eru taldar á stroki úr stöðinni þegar tillit er tekið til varnarbúnaðar í körum og í frárennsli stöðvarinnar,“ segir meðal annars í greinargerð Matvælastofnunar vegna leyfisumsóknarinnar frá Haukamýri.
Draga úr fóðurleifum sem fuglar sæki í
„Mikið brim er í fjörunni við eldisstöðina og óraunhæft að gera ráð fyrir frárennslislögn sem lögð verði út fyrir stórstraumsfjöru. Miðað við núverandi framleiðslu safnast ekki upp lífrænar leifar í fjörunni en fugl sækir í fóðurleifar og aðrar lífrænar leifar sem berst frá fiskeldinu. Í fyrirhugaðri framkvæmd er gert ráð fyrir að fjarlægja meirihlutann af lífrænum leifum í frárennslinu frá stöðinni þannig að þau verði áfram undir viðmiðunarmörkum,“ segir í greinargerð frá Haukamýri. Fjarlægja eigi allar stærri agnir, fæðu fyrir fuglana, áður en vatnið fari út um frárennsli stöðvarinnar.
„Við þessa breytingu má gera ráð fyrir að fuglum í fjörunni fækki verulega. Niðurstaða umhverfisskýrslu er sú að heildaráhrif af völdum fyrirhugaðrar stækkunar fiskeldisstöðvar séu óveruleg. Jákvæð áhrif eru þó talin vera á atvinnulíf, þjónustu og íbúaþróun vegna starfa sem munu skapast vegna stækkunar fiskeldisstöðvarinnar auk afleiddra starfa. Möguleg neikvæð umhverfisáhrif eru talin vera í útivist og upplifun þeirra sem um svæðið fara,“ sagði meðal annars í umsókninni frá Haukamýri.