Mjög hátt verð hefur fengist í Noregi fyrir fyrstu farmana af loðnu sem norsk skip veiða í íslensku lögsögunni. Meðalverðið er 2,88 krónur norskar á kíló (um 67 ISK), að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Um miðja þessa viku voru norsk skip búin að veiða um 17 þúsund tonn af loðnu í íslensku lögsögunni, samkvæmt upplýsingum frá norska Síldarsamlaginu. Loðnukvóti Norðmanna hér er 34.500 tonn.
Þar sem loðnan var góð og mikil samkeppni um hráefnið voru norskar vinnslur tilbúnar til að greiða frá 2,77 krónum norskum upp í 3,16 krónur á kílóið (64 til 73 ISK) fyrir Íslandsloðnu til manneldisvinnslu miðað við stöðuna í lok síðustu viku.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.