Útflytjendur á eldislaxi frá Færeyjum hafa hátt í tvöfaldað verð á laxi í kjölfar banns á innflutningi á matvælum til Rússlands frá ESB, Noregi, og fleiri ríkjum.

Sagt er frá þessu á vef Undercurrent News og er þar vitnað í norska blaðið Dagens Næringsliv.  Blaðið segir að færeyska félagið Bakkafrost hafi selt lax fyrir meira en 10 dollara á kílóið (um 1.700 ISK) í síðustu viku sem er hæsta verð á eldisfiski frá því á níunda áratug síðustu aldar.

Heimildir frá Rússlandi staðfesta þetta og þar kemur fram að verð á laxi frá Færeyjum hafi hækkað úr 6,25 dollurum kílóið í 10 dollara nánast á fyrsta degi eftir að ljóst var að Færeyjar voru undanþegnar innflutingsbanninu. Laxeldi í Síle hefur einnig notið góðs af því að geta flutt in lax til Rússlands. Verð á laxi þaðan hefur hækkað úr 5,4 dollurum á kíló fyrir 5 kílóa fisk í 8,35 dollara í síðustu viku.