Fiskistofa hefur tekið saman upplýsingar um skip sem enn hafa ekki uppfyllt veiðiskyldu, það er að veitt 50 prósent af úthlutuðu aflamarki og aflamarki sem flutt var af fyrra ári. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar.

„Skip sem fá úthutað aflamark er skylt að veiða amk 50 prósent af úthlutuðu aflamarki annars falla aflahlutdeildir skipsins niður. Hægt er að fá undanþágu frá veiðiskyldunni ef skip tefst frá veiðum í að minnsta kosti fjóra mánuði vegna tjóns eða meiriháttar bilana,“ segir á vef Fiskistofu.

„Þeir aðilar sem eiga skip sem ekki hafa uppfyllt veiðiskyldu hafa fengið tilkynningu þess efnis sent inn á pósthólf viðkomandi á island.is. Alls fengu 159 aðilar tilkynningu um að ekki væri búið að uppfylla veiðiskylduna,“ segir áfram um málið.

Þá kemur fram að upplýsingar um veiðiskyldu skipa séu fundnar með því að fletta upp skipi á vefsíðu Fiskistofu eða á gagnasíðum. Staða veiðiskyldu fyrir skipið sjáist þegar ýtt sé á hnappinn aflamark.