Við erum að vinna hörðum höndum að því að reyna að klára hlutdeildarsetninguna,“ segir Óttar Erlingsson hjá Fiskistofu þar sem mikið álag er vegna úthlutunar hlutdeilda í grásleppu.

„Við birtum gögn sem vissulega hafa kveikt margar spurningar hjá þeim sem eiga grásleppuréttindi og við erum að vinna að því að svara þeim spurningum og takast á við ýmis álitamál,“ segir Óttar. Þetta sé staðan núna.

„Við erum að skoða endanlega lagatúlkun sem er það sem okkur ber að gera áður en hlutdeildarsetningin er kláruð endanlega þannig að hún sé eins lagalega rétt og mögulegt er,“ útskýrir Óttar.

Álitamálin sem upp hafa komið eru af margvíslegum toga.

Margar spurningar

„Það er margt sem menn spyrja um sem við erum í raun og veru í vinnu við að túlka. Það eru til dæmis spurningar um hvernig ákvæði um heimahöfn skipsins sé túlkuð og hvað útgerðir sem eru yfir 1,5 prósentum eigi að bregðast við. Það eru spurningar um heimild til að flytja veiðireynslu á milli skipa áður en hlutdeildarsetning á sér stað,“ nefnir Óttar.

„Það eru spurningar eins og af hverju menn fái ekki meira og af hverju miðað sé við þessi ár en ekki einhver önnur. Síðan fannst mönnum þetta náttúrlega missanngjarnt eða ósanngjarnt. Og það eru spurningar um það þegar menn hafa verið að selja skip hvernig það komi inn. Það er að ýmsu að huga,“ segir Óttar.

Vonast eftir að klára í desember

Lögum samkvæmt skal hlutdeildarsetningin vera tilbúin fyrir 1. mars á næsta ári en Óttar segir menn  vonast til að henni verði þó lokið í desember eða í síðasta lagi í janúar.

„Miðað við flækjustigið í framkvæmdinni, þar sem við þurfum að leita til útgerðanna sjálfra og niðurstaðan getur orðið sú að þær fá rétt til að flytja veiðireynslu á milli skipa að ákveðnum forsendum uppfylltum, þá tekur allt slíkt tíma,“ nefnir Óttar að lokum sem dæmi um atriði sem tafið geta afgreiðslu málsins