„Það er ánægjulegt að greina frá því að hátíðarhöld verða í Grindavík í tilefni sjómannadagsins í ár,“ segir á vef Grindavíkurbæjar.

„Sjómannadaginn í ár ber upp á 1. júní og mun dagskrá hefjast með sjómannamessu kl. 13:00 í Grindavíkurkirkju. Að lokinni messu verður gengið að minnisvarðanum Von. Í kjölfarið verður fjölskyldudagskrá við Kvikuna með m.a. hoppuköstulum og öðrum skemmtilegum viðburðum,“ segir á vef Grindavíkur.

„Hlökkum til að sjá sem flesta“

Bæjaryfirvöld hvetja alla Grindvíkinga til að taka daginn frá og taka þátt í hátíðarhöldunum einnig til að taka til í kringum sitt nánasta umhverfi og gera bæinn enn snyrtilegri fyrir hátíðina. Þeir sem hyggi á opna viðburði eða sérstaka dagskrá í tilefni dagsins séu hvattir til að hafa samband við Grindavíkurbæ svo hægt sé að koma því á framfæri í opinberri dagskrá

„Við hlökkum til að sjá sem flesta og fögnum saman sjómannadeginum!“ segir á grindavik.is.