Umbylting verður á aðstöðu til rannsókna á nýju rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, Þórunni Þórðardóttur HF 300, sem kom um síðustu helgi til Hafnarfjarðarhafnar frá Spáni eftir 11 daga siglingu með stoppi í Færeyjum. Auk þess er skipið einkar vel búið til togveiða og stefnt er að því að það láti úr höfn á morgun eða föstudag og taki þátt í marsralli Hafrannsóknastofnunar sem nú stendur yfir.

11 dagar í stað 5 í heimsiglingu
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir heimkomuna hafa verið ánægjulega og langþráða. Í stað 5 daga siglingar frá norðurströnd Spánar tók það ellefu daga að koma skipinu heim sem helgast af stífum brælum og óhappi sem varð skammt frá Færeyjum þar sem einn úr áhöfninni handarbrotnaði svo snúa þurfti skipinu aftur til Fuglafjarðar þar sem maðurinn komst undir læknishendur.
Skipið sigldi svo inn í skjóli nætur árla laugardagsmorguns en hátíðleg móttökuathöfn verður í skipinu eftir hádegi í dag, miðvikudag.
Betri orkunýting
Þórunn Þórðardóttir HF var sjósett í janúar 2024 í Vigo á Spáni. Skipið leysir af hólmi Bjarna Sæmundsson HF 30 sem hefur þjónað sem hafrannsóknaskip í 53 ár. Þórunn er nær 70 m langt og um 13 m á breidd. Mikil áhersla var lögð á að skipið yrði eins umhverfisvænt og sparneytið og unnt er, um er að ræða tvíorkuskip með rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi er olía en einnig eru stórar rafhlöður um borð sem stuðla að betri orkunýtingu.

„Auðvitað er þetta eins og oft er með ný skip að það er eitt og annað sem þarf að laga. En við erum að gera hana klára fyrir togararall og hún getur farið af stað á fimmtudag eða föstudag,“ segir Þorsteinn. Hann segir almenna ánægju ríkja með skipið og ekkert stórvægilegt sem þarf að gera svo það verði klárt í sín verkefni. Aðalatriðið núna sé að sjá hvernig millidekkið virkar enda ekkert verið hægt að prófa það fram að þessu. Þegar ljóst var að heimsiglingin tæki ekki fimm daga heldur ellefu var samið við útgerðir Breka VE og Þórunnar Sveinsdóttur VE um að þau yrðu tveimur dögum lengur í yfirstandandi marsralli.
Þjóðargjöf á afmæli fullveldisins
Fyrst var farið að ræða af alvöru um nýtt rannsóknaskip fyrir Hafrannsóknastofnun um miðjan síðasta áratug. Það var svo ákveðið á sérstökum hátíðarfundi Alþingis árið 2018 að smíða nýtt hafrannsóknaskip sem yrði þjóðargjöf til landsmanna í tilefni af 100 ára fullveldi landsins. Þetta var eina málið á dagskrá Alþingis þann dag og sumir segja þetta hafa verið dýrasta fund Alþingis fyrr og síðar. Fjárheimildirnar til smíði skipsins voru 36 milljónir evra, sem samkvæmt genginu í dag eru 5,3 milljarðar króna.

„Það hefur verið metnaður okkar að smíðakostnaðurinn yrði innan fjárheimilda og við erum stoltir af því að það hafi tekist. Ég átti nýlega samtal við kollega minn frá Þýskalandi. Þjóðverjar eru að láta smíða fyrir sig nýtt rannsóknaskip, reyndar 83 metra langt og breiðara en Þórunni. Kostnaðaráætlun þeirra er 220 milljónir evra [32,4 milljarðar ÍSK, innsk. blm.]. Við erum að fá einkar gott skip fyrir mjög lágt verð miðað við þróunina sem hefur orðið frá því skrifað var undir smíðasamninginn. Þórunn Þórðardóttir fullnægir þeim þörfum sem við gerum til okkar skipa,“ segir Þorsteinn.
Aðskilin rannsóknaaðstaða
Skipahönnunarfyrirtækið Skipasýn hannaði nýja rannsóknaskipið í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun og skipasmíðastöðina. Skrifað var undir samninga við Armón skipasmíðastöðina í Vigo 1. apríl 2022. Um var að ræða alútboð voru útfærslur á skipinu unnar með skipasmíðastöðinni. Smíði skipsins hefur því verið mikið samstarfsverkefni allra þessara aðila frá fyrstu tíð.

Þorsteinn segir smíði skipsins hafa verið mjög flókna. Um sé að ræða rannsóknaskip en um leið fiskiskip. „Bakborðshlið skipsins er í raun má segja togari sem dregur tvö troll og flottroll þegar við á. Stjórnborðssíðan er rannsóknarhluti skipsins sem er þannig aðskilinn frá togrennunni. Í skipinu eru tvær aðalvélar og það er keyrt áfram á rafmagni eins og hefur verið á Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni.“
Stækkanleg rafhlöðusamstæða
Í skipinu er rafhlöðusamstæða sem gerir kleift að keyra skipið í allt að eina klukkustund á 5 mílna ferð eingöngu fyrir rafmagni. Mögulegt er að stækka rafhlöðusamstæðuna enn frekar. Þorsteinn segir að þetta nýtist mest í sjórannsóknum og myndavélatúrum. „Fyrir þá sem færast yfir að Bjarna Sæmundssyni yfir á Þórunni Þórðardóttur verður um algjöra byltingu að ræða í aðbúnaði. Sú aðstaða sem rannsóknafólkið hefur til að sinna vísindastörfum verður allt önnur og betri."
Skipið er fullbúið tækjum til bergmálsmælinga á öllum uppsjávartegundum og til bolfiskrannsókna.

„Þetta er fyrsta rannsóknaskipið sem er með skrúfuhring og þar með fyrsta rannsóknaskipið sem stenst hljóðkröfur vísindasamfélagsins. Með skrúfuhringnum fæst einnig betri orkunýting meðan skipið er að toga og við erum að standast allar kröfur hvað það varðar. Þessu má þakka framlagi Skipasýnar sem hannaði skrúfuna og skrúfuhringinn,“ segir Þorsteinn.
Grafkyrrt á sama punkti
Skipið og myndavélabúnaður um borð mun nýtast sérstaklega vel til rannsókna á humarholum og á öðrum sviðum. Á fjárlögum fyrir þetta ár var veitt fjárheimild til þess að kaupa í skipið öfluga myndavél með griparmi til sýnatöku. Þá er það með sérstökum stjórnbúnaði sem gerir því kleift að vera algjörlega kyrrt á sama punkti. Búnaðurinn, svokallaður Dynamic Positioning System, stýrir með samtengndum hætti skrúfunni, bógskrúfunni, stýrinu, „thruster“ að framan og öllum vélunum. Þorsteinn segir að þetta eigi eftir að valda byltingu til dæmis í humarrannsóknum, auka til muna nákvæmni og leiða til tímasparnaðar.

Enn er ekki fulljóst hvernig úthaldi nýja skipsins verður háttað. Hugsanlegt er að einhver af þeim verkefnum sem Árni Friðriksson hefur sinnt færist yfir á nýja skipið en að öðru leyti verður Þórunn keyrð eins og um Bjarna Sæmundsson væri að ræða. „Svo leiðir tíminn í ljós hvað hún getur hvað varðar togkraft og fleira. Við vildum alla vega ekki ákveða fyrirfram verkefnin í smáatriðum heldur byggja á því sem kemur í ljós á næstu dögum og vikum,“ segir Þorsteinn.