Stjórnir hátæknifyrirtækjanna Micro og Klaka hafa komist að samkomulagi um sameiningu félaganna tveggja. Eftir sameiningu samanstendur eignarhald félagsins af sterkum kjölfestueiganda, ásamt dreifðu eignarhaldi lykilstarfsmanna félagsins.

50 starfsmenn í sameinuðu fyrirtæki

Sameiningin styður við áform um áframhaldandi vöxt, en bæði félög hafa aukið veltu sína mikið á síðustu árum. Eftir sameiningu verða starfsmenn félagsins um 50 talsins og starfsemi félagsins sameinuð undir eitt þak í húsakynnum að Einhellu í Hafnarfirði.

„Sameiningin gerir okkur kleift að koma enn betur til móts við viðskiptavini okkar. Sameinuð geta félögin tekið að sér fleiri og stærri verkefni og hækkað þjónustustigið. Með auknum umsvifum erlendis hefur þörfin aukist fyrir þjónustu á öllum tímum sólarhringsins. Viðskiptavinir félaganna tveggja koma úr matvælaframleiðslu, sjávarútvegi, fiskeldi, lyfjaiðnaði svo fátt eitt sé nefnt og við stefnum á að veita þeim geirum framúrskarandi þjónustu áframm,“ segir Gunnar Óli Sölvason framkvæmdastjóri Micro.

Á sama grunni

Óskar Péturssonar framkvæmdastjóri Klaka segir fyrirtækin vinna á sama grunni.

„Bæði þessi félög hafa vaxið mikið síðustu árin og þróað framúrskarandi lausnir. Samlegðin hjá okkur er mikil og vörurnar okkar passa vel saman. Við vinnum nú þegar á sama grunni þegar kemur að hugbúnaði og höfum unnið náið saman í talsverðan tíma. Þetta er skref sem allir munu njóta góðs af, jafnt starfsfólk sem kúnnar, þar sem við munum geta veitt enn betri þjónustu og haldið þróun áfram á fullu gasi.“