Fiskistofa hefur birt skrá yfir aflahlutdeild 100 stærstu útgerða landsins. Litlar breytingar eru í efstu sætunum frá því í september á síðasta ári að öðru leyti en því að Síldarvinnslan eykur hlut sinn
Fiskistofa hefur eftirlit með að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram þau mörk sem lög kveða á um. Fiskistofa kannar einnig tengsl fyrirtækja og hvort samanlögð hlutdeild tengdra aðila fari yfir tilsett mörk.
Útreikningur til þorskígilda miðast við allar tegundir aðrar en þær sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu en eru þó kvótabundnar, þ.e. þorskur í Barentshafi og rækja á Flæmingjagrunni eru ekki talin með.
Eins og undanfarin ár er HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. Samanlagt ráða þau yfir 18,2% af aflaheimildum sem er lítilsháttar samdráttur frá síðasta ári en þá var hlutfallið 18,9%. Síldarvinnslan kemur svo í þriðja sæti en var í áttunda sæti í fyrra, því næst kemur Þorbjörn hf og FISK-Seafood er í fimmta sæti. Hástökk Síldarvinnslunnar vekur vissulega athygli en útgerðin jók heildaraflahlutdeild sína úr 3,8% í 5,2%. Útgerðin eykur hlutdeild í öllum helstu tegundum en sýnu mest í ýsu eða úr 2% í 3%, segir á vef Fiskistofu.
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild einstaks eða tengdra aðila í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%. Ekkert fyrirtæki fer yfir þessi mörk.