Árið júnímánuði árið 1904 fórust 625 manns, konur, karlar og börn, þegar danska farþegaskipið Norge með tæplega 800 manns innanborðs steytti á boða rétt við Rockall-klettinn vestan við Bretlandseyjar vegna afdrifaríkra mistaka skipstjórans. Þessi skelfilegi harmleikur er rifjaður upp í jólablaði Fiskifrétta í grein eftir Magnús Þór Hafsteinsson.

Farþegar voru 727 talsins, í mörgum tilfellum konur með börn á leið til Bandaríkjanna og Kanada til fundar við eiginmenn sína sem farið höfðu á undan. Fólkið var af ýmsu þjóðerni, 284 Norðmenn, 103 Svíar, 259 Rússar og Finnar, 71 Dani, 5 Bandaríkjamenn, tveir Englendingar og einn Íslendingur.

Gundel skipstjóri sá fyrir sér áhyggjulausa siglingu í sumarblíðu og ákvað að sigla skipinu skammt sunnan við Rockall klettinn svo farþegarnir gætu virt fyrir sér þennan dularfulla drang í úthafinu. Yfirmenn skipsins sigldu eftir kompás nóttina áður og létu hjá líða að reyna að taka staðarákvörðun með því að miða við stjörnurnar. Þessa nótt var fullt tungl og stórstreymt. Driftin til norðurs vegna hafstrauma var miklu meiri en þeir gerðu sér grein fyrir. Skipið bar af leið norður á bóginn og stefndi beint á Rockall og strandaði á Helenuboða sem er grunnið austan og norðaustan við klettinn.

Rockall kletturinn
Rockall kletturinn
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Eins og að líkum lætur braust út ofsahræðsla þegar fólkið gerði sér grein fyrir að skipið væri að sökkva og reyndi hver sem betur gat að komast í björgunarbáta. Aðeins átta björgunarbátar voru til taks og fullsetnir rúmuðu þeir 300 manns. Einungis fimm björgunarbátanna komust frá skipinu. Að minnsta kosti tveir glötuðust þegar þeir slitnuðu úr davíðunum yfirfullir af fólki og steyptust í sjóinn. Ekki tókst að losa einn bát.

Þegar upp var staðið björguðust 170 manns af farþegaskipinu en 625 fórust. Meðal þeirra sem björguðust var eini Íslendingurinn um borð, Jóhann Gísli Bjarnason frá Vestmannaeyjum.

Þessi saga átti svo eftir að endurtaka sig aðeins tæplega átta árum síðar þegar Titanic sigldi á borgarísjaka við Nýfundnaland.

Sjá greinina um harmleikinn við Rockall í heild í jólablaði Fiskifrétta.