Hannesi Þ. Hafstein, björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Björgunarsveitarinnar Sigurvonar og Björgunarsveitarinnar Suðurness, var siglt frá heimahöfn sinni í Sandgerði í síðasta sinn í gærkvöldi. Skipið hefur verið selt til Færeyja, þar sem það mun sinna verkefnum sem lóðs og þjónustuskip við hin ýmsu verkefni.

Hannes Þ. Hafstein var smíðaður árið 1982 í Englandi en kom til landsins árið 2003, þá fyrst með heimahöfn í Hafnarfirði og bar þá nafnið Einar Sigurjónsson. Árið 2014 var skipið endurskírt Hannes Þ. Hafstein og fært til Sandgerðis og hefur þjónað þar síðan.

Fjögurra manna áhöfn frá Færeyjum kom til landsins með flugi í gær og lagði strax úr höfn áleiðis til Færeyja, enda veður hagstætt næstu daga til siglinga á milli landa fyrir skip að þessari stærð. Upphaflega bar skipið nafnið The Davina and Charles Matthews Hunter og var með heimahöfn í Mallaig í Skotlandi þar sem það þjónaði til 2001 Konunglegu Bresku Sjóbjörgunarsamtökunum (RNLI).
Að meðaltali hefur Hannes Þ. Hafstein (áður Einar Sigurjónsson) farið í 8 útköll á ári í þessi 20 ár á hæstu tveimur forgöngum sem boðað er á. Má því áætla að Hannes sé búinn að fara í að minnsta kosti 160 útköll þar sem nokkuð eða mikið hefur legið við og er það fyrir utan aðrar ferðir og sérþjónustur sem björgunarskipin veita á ársgrundvelli.


Eitt elsta björgunarskip Evrópu

Þetta þýðir að ekkert björgunarskip verður staðsett í Sandgerði til um það bil 20. mars. Þá er von á því að yngra skip sömu gerðar, sem nú hefur heimahöfn á Siglufirði taki við. Til Siglufjarðar kemur hins vegar nýtt björgunarskip sem er hluti af endurnýjunarverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Endurnýjunarverkefið felur í sér smíði á 13 nýjum skipum. Þegar er komið til landsins björgunarskipið Þór sem er í Vestmannaeyjum.

Það var ákveðinn eftirsjá meðal heimamanna í gærkvöldi þegar Hannes Þ. Hafstein lagði úr höfn í Sandgerði í síðasta skipti, en á sama tíma er ákveðinn léttir að eitt elsta björgunarskip sem enn er í notkun í Evrópu hefur nú lokið hlutverki sínu sem útkalls skip, eftir meira en 40 ára þjónustu við sjófarendur við Bretlands- og Íslandsstrendur.