Handfærabátarnir á makríl hafa í fyrsta sinn náð að klára veiðar úr sínum potti sem var 845 tonn. Bátarnir hafa nú fengið leyfi til að veiða 10 daga í viðbót samkvæmt reglugerð sem sjávarútvegsráðherra hefur sett.
Í frétt á vef Fiskistofu segir: Með reglugerðinni gefst skipum, sem leyfi hafa haft til makrílveiða á línu og handfæri, kostur á að stunda veiðar í 10 daga eftir að heimiluðum makrílafla hópsins er náð. Aflinn náði viðmiðunarhámarki þann 27. ágúst sl., þannig að síðasti dagur sem heimilt er að veiða makríl með línu og handfærum er fimmtudagurinn 6. september 2012.
Alls hafa handfærabátarnir nú veitt 875 tonn af makríl. Fjóla GK er aflahæst með 195 tonn, Sæhamar SH er annar hæstur með 125 tonn og Siggi Bessa SF í þriðja sæti með 96 tonn.