Veiðiheimildir handfærabáta í makríl eru stórauknar á þessu ári samkvæmt nýrri reglugerð um makrílveiðar sem atvinnuvegaráðuneytið hefur sett. Nái þeir að veiða heimildir sínar geta þeir um það bil þrefaldað afla sinn frá því sem var á vertíðinni 2012.

Íslensk skip hafa leyfi til að veiða rúm 123 þúsund tonn af makríl á árinu 2013, þar með talið 20 þúsund tonn á samningssvæði NEAFC, utan lögsögu ríkja. Þessum heimildum er skipt í fjóra potta.

Stærsta pottinum, 87.303 tonnum, skal ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009, þ.e. til uppsjávarskipa sem aflað hafa sér veiðireynslu.

25.976 tonnum skal ráðstafað til vinnsluskipa, einkum og sér í lagi frystitogara. Frystiskipum skal skipt í þrjá flokka eftir stærð.

6.703 tonnum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að aflinn verði unninn í landi. Aflaheimildum þessum skal skipt á milli tveggja stærðarflokka skipa.

3.200 tonnum skal ráðstafað til báta sem stunda makrílveiðar með handfærum, eða línu ef um það er að ræða. Þeim skal skipt sem hér segir: 1.300 tonn á tímabilið 1.-31. júlí og 1.900 tonn á tímabilið 1. ágúst til 31. desember 2013.

Sjá nánar reglugerð um makrílveiðar: http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=d1cd8d13-d1e4-4b2a-a215-1d6eb631cf69