Hampiðjan hefur ákveðið að stofna sölufyrirtæki í Brisbane á austurströnd Ástralíu til að sinna þörfum markaðarins fyrir net, kaðla og ofurtóg.
Um árabil hefur Hampiðjan rekið fyrirtækið Hampidjan New Zealand á tveim stöðum á Nýja Sjálandi og hefur það fyrirtæki selt inn á ástralska markaðinn.
Vegna fjarlægðar og dýrra flutninga hefur það ekki skilað tilætluðum árangri og því er það skref stigið að stofna nýtt fyrirtæki á þessu markaðssvæði. Fyrirtækið á Nýja Sjálandi verður rekið með óbreyttu sniði og getur nú einbeitt sér að fullu að markaðinum þar.
Fyrirtækið, sem mun bera nafnið Hampidjan Australia, verður stofnað í samstarfi við Þorstein Benediktsson sem hefur búið og unnið í Ástralíu undanfarin átta ár og rekið þar fyrirtæki sem hafa sinnt sjávarútvegi og selt vörur til útgerða með góðum árangri.
Sjá nánar á vef Hampiðjunnar.