Hampiðjan Offshore, deild innan Hampiðjunnar sem sinnir verkefnum á erlendri grundu, hefur gert samning við einn stærsta verktakann í niðursetningu á vindmyllugörðum á hafi úti, Seaway Heavy Lifting, SHL, um sölu á ofurlyftibúnaði. Davíð G. Waage, markaðs- og sölustjóri Hampiðjunnar Offshore, segir þetta stærsta samninginn á þessu sviði til þessa.
Davíð segir að þetta sé ekki fyrsti samningurinn og ekki sá síðasti sem Hampiðjan Offshore gerir við fyrirtæki á þessu sviði. Pantanir eru frá öðrum fyrirtækjum á búnaði af þessu tagi.
„Offshore deildin hjá okkur er hugsuð til þess að sjá fyrirtækjum á öðrum sviðum en sjávarútvegi vörur okkar. Við réðum tvo sölumenn, einn í Skotlandi og annan í Hollandi og sá síðarnefndi hefur mikil tengsl inn í vindmyllugeirann. Við höfum selt talsvert mikið af vörum inn í olíuiðnaðinn í gegnum árin en nú er hann í ákveðnum erfiðleikum. Þess vegna fórum við þessa leið og höfum náð ágætum árangri,“ segir Davíð.
Hann segir að vindmyllugeirinn sé stór í Evrópu. Mikil uppbygging sé í Evrópu á þessu sviði enda hafi Evrópusambandið lagt mikla fjármuni í uppbygginguna til þess að á markmiðum um græna orku. Uppbygging á vindmyllugörðum úti á hafi er komin af stað í Hollandi, Frakklandi, Spáni og Englandi. Hampiðjan Offshore sér þarna mikil tækifæri í sölu á ofurlyftibúnaði til uppsetningar á vindmyllugörðum úti á hafi.
Uppsetningin fer þannig fram að undirstöður eru barðar niður á hafsbotninn með hömrum sem vega um 600 tonn. Þeim þarf að lyfta af skipum og slaka niður að undirstöðunum. Auk þessa hefur Hampiðjan verið stærsti framleiðandi í heimi á ofurtógum fyrir sjávarrannsóknir.
„Við höfum selt mjög langa kapla, allt upp undir 12 km langa, fyrir margvísleg verkefni út um allan heim.“
Áður fyrr voru stálvírar notaðir við mörg af þessum verkefnum. Davíð segir að hlutir í vindmyllum séu það þungir að til þess að niðursetningin sé möguleg með núverandi búnaði þurfi að nota fíberstroffur. Þær eru sjö til átta sinnum léttari en stálvír í sama styrk með sömu lyftigetu. Hann segir að tæknin í framleiðslu stroffanna komi öll úr sjávarútvegi. Dynice tógin er gerð úr ofurtrefjum úr plasti.
Samningurinn við SHL er sá stærsti sem Hampiðjan Offshore hefur gert við verktaka í niðursetningu á vindmyllugörðum á hafi úti.