Hampiðjan er sögð líkleg til að hreppa norska fyrirtækið Mørenot, sem nú er í söluferli á lokastigi. Norski fréttavefurinn IntraFish hefur heimildir fyrir því að Hampiðjan sé eitt tveggja eða þriggja fyrirtækja sem enn séu inni í myndinni.

Niðurstöðu sé líklega að vænta fyrir áramót. Kaupverðið yrði líklega um 800 milljónir norskra króna, sem samsvarar nærri tíu milljörðum íslenskra króna.

Það er norska ráðgjafarfyrirtækið Saga Corporate Finance sem hefur umsjón með söluferlinu. Einn af stofnendum þess fyrirtækis, Ivan Alver, upplýst Intrafish nýlega um að niðurstaða fengist líklega úr þessu söluferli fyrir áramótin næstu.

Mørenot er samkeppnisaðili Hampiðjunar á ýmsum sviðum, og framleiðir auk veiðarfæra ýmsar aðrar vörur tengdar útgerð og sjómennsku.

Auk Hampiðjunnar er breski fjárfestingarsjóðurinn HIG Capital sagður vera með á síðustu metrunum í söluferlinu, en þriðja fyrirtækið gæti verið Pontos Aqua, sem er sjóður í eigu bandaríska fjárfestingarsjóðsins Tinicum. Ekki er þó vitað með vissu hvort Pontus Aqua er þriðja fyrirtækið í ferlinu, eða hvort mögulegir kaupendur séu tveir eða þrír.