Hampiðjan kynnir fjórar nýjungar á Íslensku sjávarútvegssýningunni IceFish 2024 í Fífunni í Kópavogi dagana 18.-20. september.
Fyrst ber að nefna nýja höfuðlínukapalsvindu sem er sérhönnuð fyrir ljósleiðarakapalinn DynIce Optical Data og hefur verið í þróun síðustu misserin. Vindan er hönnuð í samstarfi við hollenskan sérfræðing í dráttarspilum sem Hampiðjan hefur unnið með áður í djúpsjávarverkefnum. Vindan var svo smíðuð af fyrirtækinu Naust Marine á Spáni. Á vindunni er tromla með dráttarspili sem heldur við kapalinn svo átakið inn á hana er ætíð jafnt, eða um 800 kg. Það kemur í veg fyrir að kapallinn grafist niður í lögin fyrir neðan og klemmist og ljósleiðarinn brotni. Einnig er á henni armur sem raðar ljósleiðarakaplinum inn á tromluna af mikilli nákvæmni.
Ljósleiðarakapalsvindan er hönnuð fyrir fiskveiðar en nýtist einnig í öðrum geirum þar sem flytja þarf mikið gagnamagn af miklu dýpi í stjórnstöðvar ofansjávar. Þessi búnaður mun gegna stóru hlutverki í fiskveiðum framtíðarinnar því þegar upplýsingar frá veiðarfærum og upp í brú eru nær ótakmarkaðar má stýra veiðum mun betur.
Gervigreind greinir tegundir og stærð fiska
Í öðru lagi verður Dr. Ludvig Ahm Krag, prófessor í fiskveiðitækni í Danmarks Tekniske Universitet (DTU) með fyrirlestur á bás Hampiðjunnar dagana 18. og 19. september, kl. 14:00, um búnað sem verið hefur í þróun hjá DTU og samstarfsaðilum en hann nýtir gervigreind (AI) til að greina samsetningu afla sem veiðist í trollið.
Kerfið notar rauntímamyndavélar með tækni til að hreinsa frá rykský svo myndin sé skýr og myndgreiningu sem nýtir gervigreind til að greina tegundir og stærð fiska. Með slíkum búnaði verður hægt að stýra veiðum mun betur með lifandi myndum sem sýna hvernig veiðarfærin haga sér í sjó, hvaða fiskur kemur í trollið og í framtíðinni jafnvel skilja frá ákveðnar tegundir og stærðir úr aflanum. Þar kemur DynIce Optical Data kapall Hampiðjunnar sterkur inn með nær ótarkmarkaða getu til gagnaflutnings en það er forsenda þess að hægt verði að nýta tæknina.
Rockhopper í hálfhringjum
Í þriðja lagi verður kynnt ný gerð af rockhopperlengju sem er byggð upp af plasthálfhringjum í stað stórra gúmmíhringja. Lengjan er hönnuð af dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Noregi, Mørenot Fishery, og er hönnunin í einkaleyfisferli. Kostirnir við nýju hálfhringslengjuna er að togmótstaðan er minni og trollið því léttara í drætti. Prófanir hafa sýnt að hún smalar betur fiski og það gefur meiri veiði í trollið. Lengjan er umhverfisvæn því snertiflöturinn er úr stáli og því minna slit en á rockhoppergúmmíinu og með minni togmótstöðu sparast olía og kolefnissporið verður minna. Aukin veiði á togstund lækkar einnig kolefnissporið.
Grennra tóg með Robus ofurefni
Í fjórða lagi verður grennra og sterkara Helix Robus flottrollstóg kynnt, en kjarni þess er gerður úr ofurefni og með auknum styrk er hægt að grenna Helixtógið töluvert og sem dæmi má nefna að í stað 12 mm sverleika kemur 8 mm svert tóg. Þetta efni er notað fremst í flottrollin til að minnka togmótstöðuna og auka toghraðann sem því nemur. Makríll er sprettharður fiskur og fer hraðar yfir eftir því sem hann er stærri og með auknum toghraða er hægt að veiða meira af stærri og verðmætari fiski.
Gestir á bás Hampiðjunnar geta kynnt sér allar þessar nýjungar; ljósleiðaravinduna fyrir DynIce Optical Data kapalinn, gervigreindartækni DTU, hálfhringslengjuna og Helix Robus flottrollstógið ásamt öðrum vörum þessa stærsta veiðarfærafyrirtækis heimsins. Básinn verður vel mannaður og rýmið nægt fyrir gesti og gangandi að ræða við starfsfólk um hvernig vörur Hampiðjunnar geta gagnast í sjávarútvegi og njóta veitinga á Café Gloria sem verður á sínum stað.
„Við erum spennt fyrir því að taka þátt í IceFish 2024 og kynna allar þessar nýungar og að hitta okkar viðskiptavini og fagfólk í greininni,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar. „IceFish er frábær vettvangur til þess og við hvetjum alla til að heimsækja okkur á bás D-50.“