Hampiðjan hefur samið um kaup á fyrirtækinu International Rope Braid (IRB) sem er á Gold Coast rétt fyrir sunnan Brisbane á austurströnd Ástralíu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir að IRB hafi verið stofnað 2005. Stofnendur og eigendur fyrirtækisins séu hjónin Dave og Suzy Allen sem selja muni allan sinn hlut en styðja við yfirtökuferlið næstu mánuðina til að tryggja góða yfirfæslu á starfseminni.
„Kaupin á IRB eru mikilvægt skref í að byggja upp enn frekar starfsemi okkar í Ástralíu til að þjóna bæði ástralska og nýsjálenska markaðnum betur því erfitt er að bjóða ásættanlegan afhendingartíma frá Evrópu fyrir fléttað tóg. IRB mun njóta góðs af rótgrónum mörkuðum okkar og mikilli þekkingu á efnum og framleiðslutækni og á þann hátt gera þeim kleift að vaxa,“ er meðal þess sem haft er eftir Hirti Erlendssyni, forstjóra Hampiðjunnar Group, í fréttatilkynningunni.
Himinlifandi með að skilja fyrirtækið sitt eftir í höndum Hampiðjunnar
Þá er haft eftir þeim Suzy og Dave að það hafi verið gefandi áskorun að byggja IRB upp frá grunni, án viðskiptavina eða birgja þegar þau hafi komi til Ástralíu fyrir 20 árum frá Nýja-Sjálandi.

„Á þessum tíma höfum við notið þeirrar ánægju að þjálfa mörg ungmenni sem eru að byrja í textíliðnaðinum, auk þess að tryggja frábært samstarf og sambönd við viðskiptavini okkar. Það sem byrjaði sem lítill staðbundinn iðnaður hefur vaxið með árunum og orðið leiðandi í framleiðslu á kápufléttuðum tógum í Ástralíu og víðar. Við erum himinlifandi með að skilja fyrirtækið okkar og sérstaklega teymið okkar, sem er okkur mjög mikilvægt, eftir í svona hæfum höndum, vitandi að IRB í höndum Hampiðjunnar mun halda áfram að blómstra,” er haft eftir hjónunum.
Fram kemur að gert sé ráð fyrir að rekstur IRB komi inn í samstæðureikning Hampiðjunnar frá 1. ágúst. IRB sérhæfi sig í að flétta kápur utan um ýmsar gerðir af ofurtógum og framleiðslu á slíkum tógum fyrir margs konar viðskiptavini en mestsé salan tengd seglskútum og stærri vélbátum sem notaðir séu til skemmtisiglinga ásamt sölu til fyrirtækja í námuvinnslu, fiskeldi, fiskveiðum og öðrum iðnaði. Einnig segir að velta IRB hafi verið stöðug undanfarin ár og um 1,7 m€ á ári og EBITDA var rúmlega 0,4 m€ á síðasta rekstrarári. Starfsmenn sé sextán talsins.
Vel þjálfað starfsfólk taki við er eigendurnir hverfi á braut
„Um 30 mínútna akstur í norður er Hampidjan Australia með höfuðstöðvar og samstarf fyrirtækjanna hefur verið náið og vaxandi því Hampidjan hefur útvegað IRB tóg til yfirfléttunar sem framleitt er í Hampidjan Baltic í Litháen. Þótt Hampidjan Baltic geti sinnt flestu því sem unnið er hjá IRB þá er flutningstími- og kostnaður of hár til að geta sinnt Ástralska markaðnum á viðunandi hátt hvað varðar afhendingartíma. Fyrirhugað er að Hampidjan Australia og IRB verði rekin sem systurfélög næstu árin,“ segir í tilkynningunni.
Samlegðaráhrif er sögð vera nokkur. Þau felist í enn nánara samstarfi fyrirtækjanna, hagstæðara verði á hráefnum sem Hampiðjan kaupi inn en mörg hráefnin séu þau sömu og notuð séu í Hampidjan Baltic. Kaupin munu einnig styrkja stöðu Hampidjan New Zealand því með þeim opnist nýir möguleikar með aðgengi að framleiðsluvörum IRB.
„Ástralía er langt frá öllu og í gegnum árin höfum við reitt okkur á flugfrakt sem er dýr frá Evrópu og tekur samt of langan tíma í mörgum tilfellum fyrir viðskiptavini okkar. Dave Allan hjá IRB hefur aðstoðað okkur oft með sérstökum fléttum fyrir tógin okkar og færni hans og vilji til að hjálpa hefur verið frábær. Dave hefur þjálfað teymið sitt vel og þau eru nú tilbúin að taka við þegar hann og Suzy hætta störfum,“ er haft eftir Þorsteini Benediktssyni, framkvæmdastjóra Hampiðjunnar í Ástralíu.