Hampiðjan Advant afhenti nýverið japönsku hafrannsóknastofnuninni JAMSTEC nýtt 25 mm og 12.000 metra langt DynIce Warp ofurtóg til notkunar um borð í rannsóknarskipinu KAIMEI. Ofurtógið, sem er með 45 tonna slitþol, kemur í stað sams konar eldra tógs sem afhent var árið 2014 og hefur verið í stöðugri notkun síðan, eða í 11 ár - sem telst óvenjulangur líftími í svo krefjandi aðstæðum.

Tímamót 2014

Afhendingin árið 2014 markaði tímamót í japönskum hafrannsóknum, þar sem svo langt tóg úr gerviefni hafði aldrei áður verið notað í landinu. Til að setja lengd tógsins í samhengi má nefna að um 11 km eru niður á dýpsta hluta hafsins, Mariana Trench í Kyrrahafi þannig að með 12 km DynIce Warp ofurvindutógi er hægt að ná niður í alla dýpstu afkima heimshafanna. Ekki er hægt að ná þessari dýpt með stálvír því eigin þyngd hans við um 6 km lengd verður hærri en styrkleiki vírsins og hann slitnar undan eigin þunga.

Jamstec ofurtógið um borð í Kamei.
Jamstec ofurtógið um borð í Kamei.

Rannsóknarskipið KAIMEI sinnir umfangsmiklum rannsóknum á hafsbotni og jarðlögum undir hafsbotni. Þær fela meðal annars í sér leit að auðlindum og dreifingu þeirra, mælingar á umhverfisbreytingum í hafi og lofthjúpi sem tengjast hnattrænum breytingum á loftslagi, auk rannsókna sem miða að forvörnum og áhættuminnkun vegna náttúruhamfara á borð við jarðskjálfta og flóðbylgjur.

Órofa hluti af hafrannsóknum JAMSTEC

„Þetta var í fyrsta sinn sem JAMSTEC notaði svona langt ofurtóg“ segir Kenta Inaba, fulltrúi Hampiðjunnar í Japan. „Í upphafi voru uppi verulegar efasemdir um hvort slíkt tóg væri nægilega traust — menn óttuðust að það myndi ekki standast álagið og gæti slitnað í miðjum aðgerðum. En síðustu 11 ár hefur DynIce Warp ofurtógið sannað sig í verki og verið órofa hluti af hafrannsóknum JAMSTEC. Það er sjaldgæft í þessum geira að búnaður haldist jafn lengi í notkun án bilana eða rekstrarvandræða. Þetta sýnir styrkleika tógsins — og mikilvægi þess að veita viðskiptavinum tæknilega eftirfylgni til langs tíma. Kaup JAMSTEC á nýju DynIce Warp ofurtógi eru skýr vísbending um traust á bæði tæknilausninni sjálfri sem og faglegri þjónustu Hampiðjunnar,“ segir í frétt frá Hampiðjunni.