Útgerðarfélagið Skinney-Þinganes á Hornafirði og stálsmiðjan Micro í Garðabæ hafa náð samkomulagi um smíði þess síðarnefnda á vinnslubúnaði í tvö af skipum félagsins. Skipin sem um ræðir eru Skinney SF-20 og Þórir SF-77. Skipin hafa verið gerð út til veiða á humri yfir humarvertíð og bolfiskveiða utan hennar. Skipin eru nú stödd í Gdynia í Póllandi þar sem þau undirgangast lengingu og aðrar breytingar.
Vinnslubúnaðurinn sem settur verður um borð í skipin miðar að því að hámarka gæði bæði humars og bolfisks, en aðskilin kerfi verða fyrir hvora afurð um sig. Fyrirtækin hafa átt samstarf um þróun á nýstárlegri aðferð í meðferð humarsins um borð, en hann verður meðhöndlaður á annan hátt en tíðkast hefur hingað til við humarveiðar hér við land.
Hámarka gæði aflans
„Nýliðun í humarstofninum hefur verið dræm síðustu ár, og síðasta humarvertíð bar þess ágætlega vitni. Þó að góð nýting hráefnis sé auðvitað alltaf forgangsatriði hjá viðskiptavinum okkar, þá er jafnvel enn mikilvægara að huga vel að meðferð aflans þegar stofninn stendur eins og hann gerir. Vinnslurnar sem voru um borð eru jafngamlar skipunum, sem voru smíðuð árið 2008, og aðferðin sem notast var við þar miðaði að því að brúa bilið í vinnslu milli beggja tegunda. Núna hafa fyrirtækin í samstarfi sín á milli þróað búnað sem miðar að því að hámarka gæði bæði humars og bolfisks, án þess að fórna virkni eða gera málamiðlanir. Þetta skilar sér í hærra gæðamati bæði bolfisks og humars og umtalsvert minna skelbroti á humri. Það þarf auðvitað ekkert að kafa djúpt til að átta sig á að þarna er eftir miklu að slægjast,“ segir Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro.
Eins og í nýsmíðaskipum Skinneyjar-Þinganess sem skrifað var um fyrr í sumar er það Valka sem sér um hugbúnaðarhluta verkefnisins. Þetta er því framhald á samstarfi fyrirtækjanna þriggja þegar kemur að vinnslulínum í togskip. „Við höfum átt gríðarlega gott samstarf við bæði Skinney og Völku í þessu verkefni og hlökkum mikið til að koma vinnslunum um borð í skipin við heimkomu,“ bætir Gunnar við.
Ný skip árið 2019
Hér vísar Gunnar til samnings frá því fyrr á þessu ári um smíði á sjö togskipum í Noregi fyrir fjórar íslenskar útgerðir. Útgerðirnar Skinney-Þinganes og Gjögur hafa gert samning við Micro um smíði á vinnslubúnaði í fjóra af þessum nýju togurum sem félögin tvö láta smíða. Skipin, sem búnaðurinn fer í, eru smíðuð hjá skipasmíðastöðinni VARD í Noregi og eru væntanleg til landsins á seinni hluta ársins 2019. Micro annast hönnun, smíði og uppsetningu á vél- og hugbúnaðarbúnaðarhluta verkefnisins, en hugbúnaðurinn er unninn í samstarfi við Völku, eins og áður segir. Uppsetning mun eiga sér stað við komu skipanna til hafnar á Íslandi.